Fjórðungssamband Vestfirðinga fagnar 60 ára afmæli
Samgönguráðherra setti í ávarpi sínu fram hugmynd um að sveitarfélögin á Vestfjörðum, sem nú eru 10, myndu sameinast í áföngum og verða til dæmis tvö til þrjú. Hann sagðist sjá fyrir sér að við sveitarstjórnarkosningar árið 2014 verði komin á sveitarfélagaskipan sem væri í samræmi við væntingar um eflingu sveitarstjórnarstigsins sem ríkisstjórnin hefur meðal annars á stefnuskrá sinni.
Halldór Halldórsson, formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga, vék einnig að sameiningu sveitarfélaga og varpaði því meðal annars fram að starfssvæði landshlutasamtaka sveitarfélaga gætu hugsanlega orðið dæmi um stækkun sveitarfélaga.
Í umræðum í kjölfar ávarpa þeirra komu meðal annars fram ábendingar um að ýmsar samgöngubætur væru forsenda sameiningar og að við eflingu sveitarfélaga og flutning verkefna til þeirra frá ríkinu væri brýnt að nauðsynlegir tekjustofnar fylgdu.
Í ávarpi sínu ræddi samgönguráðherra einnig erfiða stöðu ríkissjóðs, fór yfir samstarf sitt við forráðamenn Sambands íslenskra sveitarfélaga og greindi frá starfi nefnda sem vinna meðal annars að endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga og á tekjustofnum sveitarfélaga.
Á þinginu eru jafnframt lagðar fram ályktanir um landbúnaðarmál, sjávarútveg, menntamál, samgöngumál og orkumál svo nokkur svið séu nefnd. Afgreiðsla ályktana og annarra mála fer fram á síðari þingdeginum á morgun, laugardag.
Fjórðungssamband Vestfirðinga fagnar um þessar mundir 60 ára afmæli sínu.