Hoppa yfir valmynd
07.09.2009 Innviðaráðuneytið

Árétting vegna úrskurða um samning vegna skipulagsmála

Þann 31. ágúst 2009 var kveðinn upp úrskurður í máli Ölhóls ehf. gegn sveitarfélaginu Flóahreppi, mál nr. 25/2009, vegna samkomulags Landsvirkjunar og sveitarfélagsins Flóahrepps. Um var að ræða endurupptöku á fyrri úrskurði ráðuneytisins frá 20. ágúst 2008 í máli nr. 26/2008.

Tilefni endurupptökunnar var beiðni Ölhóls ehf. í kjölfar álits umboðsmanns Alþingis frá 24. mars 2009, mál nr. 5434/2008, en þar beindi umboðsmaður þeim tilmælum til ráðuneytisins að það tæki mál Ölhóls ehf. til endurskoðunar kæmi fram beiðni þar um frá félaginu og hagaði úrlausn málsins í samræmi við sjónarmið í álitinu.

Í nefndu áliti umboðsmanns Alþingis voru gerðar athugasemdir við fyrri úrskurð ráðuneytisins, meðal annars að ráðuneytið hefði átt að taka afstöðu til þess hvort 6. gr. samkomulags sveitarstjórnar Flóahrepps og Landsvirkjunar samrýmdist efnisreglum skipulags- og byggingarlaga nr. 73/1997 um kostnað við gerð skipulags. Í fyrri úrskurði ráðuneytisins var ekki sérstaklega fjallað um þetta atriði heldur var komist að þeirri niðurstöðu að samningurinn í heild teldist ekki ólögmætur. Taldi ráðuneytið þá þetta atriði ekki þurfa nánari athugunar við þar sem umrætt samkomulag var ekki enn komið til framkvæmda. Því var umboðsmaður Alþingis ósammála, sbr. niðurstöðu álits hans.

Í samræmi við álit umboðsmanns Alþingis og beiðni Ölhóls ehf. um endurupptöku, fjallaði ráðuneytið um það sérstaklega í úrskurði sínum 31. ágúst sl. hvort það teldi 6. gr. samkomulagsins samrýmast tilteknum ákvæðum skipulags- og byggingarlaga. Niðurstaðan var að svo væri ekki og það samningsákvæði því talið ólögmætt. Að öðru leyti taldi ráðuneytið ekki efni til að breyta fyrri niðurstöðu sem byggðist meðal annars á rétti sveitarfélaga til að ráða sjálf málum sínum.



Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta