Hoppa yfir valmynd
24.03.2010 Félags- og vinnumarkaðsráðuneytið

Lokaathugasemdir nefndar um afnám alls kynþáttamisréttis vegna 19. og 20. skýrslu Íslands - drög að þýðingu

Á 76. fundi nefndar Sameinuðu þjóðanna um afnám alls kynþáttamisréttis sem stóð yfir frá 15. febrúar til 12. mars 2010 voru teknar fyrir skýrslur aðildarríkjanna sem lagðar eru fram á grundvelli 9. gr. Alþjóðasamnings um afnám alls kynþáttamisréttis. Í umfjöllun nefndarinnar frá 25. mars 2010 um skýrslu Íslands vekur nefndin m.a. athygli á þeim atriðum er valda henni áhyggjum ásamt tilmælum um úrbætur. Þau eru eftirfarandi (með vísan til viðeigandi málsgreina í skýrslunni):

11. Alþjóðasamningur um afnám alls kynþáttamisréttis hefur ekki verið lögfestur í löggjöf aðildarríkisins.

Nefndin leggur áherslu á mikilvægi innleiðingu allra efnisákvæða í samningnum, með það að markmiði að tryggja alhliða vernd gegn kynþáttamismunun. Nefndin lýsir yfir ánægju með stefnu ríkisstjórnar Íslands um að alþjóðlegir mannréttindasamningar, sem fullgiltir hafa verið, verði innleiddir í löggjöf aðildarríkisins.

12. Jafnvel þótt Ísland hafi lögfest ýmis ákvæði, sem eiga að tryggja jafnræði einstaklinga og koma í veg fyrir ákveðna birtingu kynþáttamismununar, þá vanti yfirgripsmikla löggjöf gegn mismunun sem verndi réttindi sem kveðið er á um í 2. og 5. gr. samningsins.

Nefndin hvetur Ísland til að lögfesta alhliða löggjöf gegn mismunun, sem tekur á öllum birtingarmyndum kynþáttafordóma, kynþáttamismunununar, útlendingahaturs og annarrar þröngsýni og tryggja einstaklingum raunhæf úrræði til að leita réttar síns fyrir dómstólum og stjórnvöldum.

13. Ísland hefur ekki enn sett á fót landsstofnun um mannréttindi, sem hefur víðtækt umboð til að efla og vernda mannréttindi í samræmi við svonefndar Parísarreglur Sameinuðu þjóðanna um stöðu og starfsemi slíkra stofnana.

Nefndin ítrekar fyrri tilmæli um að Ísland setji á fót landsstofnun um mannréttindi, sem hefur víðtækt umboð til að efla og vernda mannréttindi í samræmi við Parísarreglurnar. Nefndin hvetur einnig til þess að Ísland feli slíkri stofun að taka á móti og athuga erindi frá einstaklingum eða hópum einstaklinga innan íslenskrar lögsögu, sem halda því fram að brotin hafi verið á þeim réttindi þau sem lýst er í samningnum og hafa tæmt önnur tiltæk innlend úrræði.

14. Fjöldi erlendra ríkisborgara sem búsettir eru í aðildarríkinu hefur aukist verulega á síðustu árum (frá 3,6% af heildar íbúafjölda árið 2005 í 7,6% árið 2009). Í þessu ljósi lýsir nefndin yfir áhyggjum yfir því að tæplega 700 manns, mest ungmenni, hafi skráð sig í netsamfélag sem gefur sig út fyrir að vera á móti Pólverjum á Íslandi. (4. og 7. gr.)

Nefndin hrósar stjórnvöldum aðildarríkisins fyrir að hafa látið loka síðunni en hvetur þó til þess, í samræmi við almenn tilmæli nefndarinnar nr. 30/2004, að aðildarríkið verði áfram á verði gagnvart kynþáttafordómum, þ.á.m. hatursræðum á netinu sem eiga það til að brjótast út á tímum efnahagsörðuleika. Nefndin mælist til þess að haldið verði áfram aðgerðum sem stefna að því að koma í veg fyrir og berjast gegn fordómum ásamt því að efla skilning og umburðarlyndi á öllum sviðum samfélagsins, þó með sérstakri áherslu á ungmenni og fjölmiðla. Þá mælist nefndin til þess að aðildarríkið auki fræðslu um mannréttindi í skólum ásamt því að kveða á um slíka fræðslu í aðalnámsskrá og veita kennurum þjálfun í samræmi við það.

15. Frá árinu 2004 hefur embætti tengiliðar lögreglu í Reykjavík og fólks af erlendum uppruna fengið tvær kærur um kynþáttamisrétti en í hvorugu tilfellinu hafi aðilar máls viljað fara lengra með málið. Jafnframt veitir nefndin því athygli að frá síðustu reglubundnu skýrslu aðildarríkisins hafa engar kærur borist um meint brot á ákvæðum 180. gr. almennra hegningarlaga nr. 19/1940. Þá hafa borist fjórar kærur um meint brot á ákvæði 233. gr. a. hegningarlaga. en þeim var öllum vísað frá vegna skorts á sönnunargögnum. (a. og f. liður 5. gr. og 6. gr.)

Nefndin mælist til þess að gripið verði til aðgerða til að upplýsa fólk af erlendum uppruna um réttindi sín, upplýsa fórnarlömb um úrræði sem þeim eru tæk til að leita réttar síns, auðvelda aðgang þeirra að réttlæti ásamt því að þjálfa dómara, lögfræðinga og lögreglu í samræmi við það. Nefndin mælir með því að Ísland gangi úr skugga um hverjar séu ástæður þess að aðilar máls óska ekki eftir því að fara lengra með mál. Nefndin ítrekar fyrri tilmæli um að Ísland lögfesti öfuga sönnunarbyrði í málum er varða synjun um aðgang til jafns við aðra að opinberum samkomustað eða öðrum stöðum sem opnir eru almenningi.

16. U.þ.b. 40% kvenna sem dvelja í kvennaathvarfinu í Reykjavík eru innflytjendur. Nefndin vekur athygli á því að Ísland samþykkti breytingar á útlendingalögum nr. 96/2002 sem heimila nú endurnýjun á dvalarleyfi útlendinga frá löndum utan Evrópska efnahagssvæðisins eftir skilnað við Íslending sem hefur beitt útlending eða barn hans ofbeldi.

Nefndin mælist til þess að aðildarríkið kanni orsakir hins háa hlutfalls innflytjenda í kvennaathvarfinu. Auk þess mælir nefndin með því að Ísland ráðist í aðgerðir til að auka vitund og skilning á lagabreytingum er varða kvenkyns innflytjendur um land allt.

17. Það er ánægjuefni að með lögum nr. 86/2008 um breytingar á lögum um útlendinga nr. 96/2002 hafi skilyrði um að útlendingur sem er giftur, í sambúð eða staðfestri samvist með Íslendingi verði að vera 24 ára til að fá dvalarleyfi sem aðstandandi. Nefndin lýsir þó áhyggjum yfir því að í 3. mgr. 13. gr. útlendingalaga sé kveðið á um að ef annar makinn er 24 ára eða yngri skuli ávallt kanna hvort um sé að ræða málamynda- eða nauðungarhjónaband.

Nefndin mælist til þess að umrædd könnun skuli einungis fara fram ef það er rökstuddur grunur um að ekki hafi verið stofnað til hjúskapar með vilja beggja aðila og minnir nefndin á mikilvægi iv. lið d. liðar 5. gr. samningsins í þessu samhengi.

18. Nefndin fagnar lögum nr. 78/2008 um breytingu á lögum nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga þar sem nú er kveðið á um að tímabundið atvinnuleyfi sé gefið út á nafn útlendingsins. Þó lýsir nefndin yfir áhyggjum vegna 2. málsl. 1. mgr. 20. gr. laga nr. 97/2002 um atvinnuréttindi útlendinga en þar kemur fram að tímabundið atvinnuleyfi er skilyrt við starf hjá tilteknum atvinnurekanda. Nefndin telur að þetta geti gert það að verkum að útlendingar, sem starfa í aðildarríkinu, verði berskjaldaðri og í viðkvæmari stöðu, sérstaklega þar sem hlutfall atvinnulausra útlendinga er afar hátt.

Nefndin minnir á almenn tilmæli nefndarinnar nr. 30/2004 og hvetur Ísland til að veita útlendingum sömu meðferð og ríkisborgurum þess þegar kemur að starfsskilyrðum, réttindum og skyldum. Nefndin mælir með því að tímabundin atvinnuleyfi verði gefin út fyrir tiltekna atvinnugrein í ákveðinn tíma í stað þess að miða við tiltekinn atvinnurekanda. Þá mælir nefndin með því að fellt verði niður skilyrði kæruheimildar 1. mgr. 34. gr. laga nr. 97/2002 um að atvinnurekandi þurfi að undirrita stjórnsýslukæru svo útlendingur geti kært ákvarðanir Vinnumálastofnunar um synjun eða afturköllun tímabundins atvinnuleyfis.

19. Óvenju hátt hlutfall menntaskólanema af erlendum uppruna sem flosna upp úr námi.

Nefndin hvetur Ísland til að bæta stöðu menntaskólanema af erlendum uppruna til þess að auka aðsókn þeirra í skólana, bæta skólasókn og koma í veg fyrir brotthvarf þeirra úr skólunum.

20. Nefndin hvetur Ísland til að fullgilda þá alþjóðlegu mannréttindasamninga sem ekki hafa verið fullgiltir, sérstaklega þá samninga sem lúta að kynþáttamisrétti, t.a.m. Samning um vernd og réttindi farandverkamanna og fjölskyldna þeirra frá árinu 1990.

21. Í ljósi almennra tilmæla nefndarinnar nr. 33/2009 beinir nefndin þeim tilmælum til Íslands að þegar samningurinn verður innleiddur að tekið verði mið af Durban-yfirlýsingunni og aðgerðaáætluninni frá september 2001 ásamt því að taka til skoðunar niðurstöðu Durban ráðstefnunnar sem haldin var í Genf í apríl 2009. Nefndin krefst þess að í næstu reglulegu skýrslu aðildarríkisins verði sérstaklega fjallað um til hvaða ráðstafana hafi verið gripið til að innleiða Durban-yfirlýsinguna og aðgerðaráætlunina.

22. Nefndin mælist til þess að í tengslum við undirbúning næstu reglulegu skýrslu haldi Ísland áfram ráðfæra sig við frjáls félagasamtök og auki samskipti við þau, sérstaklega í baráttunni við kynþáttamisrétti.

23. Nefndin mælist til þess að Ísland fullgildi breytingar á 6. mgr. 8. gr. samningsins sem samþykktar voru 15. janúar 1992 á fjórtánda fundi aðildarríkjanna og studdar af Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna í ályktun nr. 47/111 frá 16. desember 1992. Í þessu samhengi bendir nefndin á ályktun Allsherjarþingsins nr. 61/148 frá 19. desember 2006 og nr. 62/243 frá 24. desember 2008 þar sem þingið brýndi fyrir aðildarríkjunum að hraða á framgangi fullgildingar á breytingunum og tilkynna framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna sem fyrst um samþykkt breytinganna.

24. Nefndin mælist til þess að Ísland birti almenningi skýrslur þess um leið og þær eru lagðar fram ásamt því að umfjöllun nefndarinnar um skýrslurnar verði birt á viðeigandi tungumáli.

25. Nefndin vekur athygli á því að Ísland lagði fram aðalskýrslu sína árið 1993 og hvetur Ísland til að leggja fram uppfærða útgáfu í samræmi við samræmdar leiðbeiningarreglur um skýrslur á grundvelli alþjóðlegra mannréttindasamninga, sérstaklega reglur sem varða aðalskýrslu og samþykktar voru á tíunda nefndarfundi mannréttindastofnana sem haldinn var í júní 2006 (HRI/MC/2006/3).

26. Í samræmi við 1. mgr. 9. gr. samningsins og 65. gr. málsmeðferðarreglnanna krefst nefndin að Ísland veiti innan árs frá þessum niðurstöðum upplýsingar um ráðstafanir þess til að fylgja eftir tilmælum í 13. 18. og 19. gr. umfjöllun nefndarinnar.

27. Þá vekur nefndin athygli aðildarríkisins á mikilvægi tilmælanna í 11. og 12. gr. umfjöllunarinnar og krefst þess að Ísland veiti ítarlegar upplýsingar í næstu reglulegu skýrslu um raunhæfar aðgerðir sem farið hefur verið í til að innleiða þessi tilmæli.

28. Nefndin mælist til þess að Ísland leggi fram 21. 22. og 23. reglulegu skýrslur sínar í einni skýrslu, sem skila ber 4. janúar 2013, ásamt því að fjalla um öll atriði sem fram koma í þessari umfjöllun.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta