Hoppa yfir valmynd
22.07.2010 Innviðaráðuneytið

Skipunartími fjárhaldsstjórnar Álftaness lengdur til 1. nóvember

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hefur ákveðið að framlengja skipunartíma fjárhaldsstjórnar Sveitarfélagsins Álftaness til 1. nóvember næstkomandi. Upphaflegur skipunartími hennar var til 1. ágúst.

Formaður fjárhaldsstjórnarinnar er Andri Árnason hæstaréttarlögmaður og aðrir nefndarmenn þau Elín Guðjónsdóttir, viðskiptafræðingur sem tilnefnd var af fjármálaráðherra, og Haraldur Líndal Haraldsson, hagfræðingur sem tilnefndur var af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Fjárhaldsstjórnin var skipuð í byrjun febrúar að tillögu eftirlitsnefndar með fjármálum sveitarfélaga sem hafði haft fjárhagsstöðu sveitarfélagsins til athugunar um skeið. Í sveitarstjórnarlögum nr. 45/1998 er ráðherra heimilað að skipa sveitarfélagi fjárhaldsstjórn til að hafa forystu um endurskipulagningu fjármála sveitarfélagsins. Skal hún skipuð þremur fulltrúum og tekur hún við stjórn fjármála sveitarfélagsins. Má enga greiðslu inna af hendi úr sveitarsjóði nema með samþykki hennar. Að öðru leyti fer sveitarstjórn áfram með málefni sveitarfélagsins.

Þar sem verkefni fjárhaldsstjórnarinnar hefur reynst umfangsmeira en séð varð í fyrstu er skipunartími hennar lengdur en í lögunum segir að fjárhaldsstjórn megi skipa til tiltekins tíma og eigi lengur en til eins árs í senn.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta