Hoppa yfir valmynd
27.08.2010 Innviðaráðuneytið

Ný tækifæri við rekstur og stjórnsýslu sveitarfélaga

Kristján L. Möller, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, greindi frá ýmsum verkefnum sem unnið er að í ráðuneyti hans og snerta endurskoðun á fjárhags- og lagagrunni sveitarstjórnarstigsins á ársfundi Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra. Eru þau endurskoðunarverkefni einna helst sveitarrstjórnarlögin og regluverk Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.

Frá ársfundi Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra
Frá ársfundi Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra

Ráðherra ræddi í upphafi þrönga stöðu ríkissjóðs en sagði stefnt að jöfnuði í ríkisfjármálum 2013. Hann minnti á ýmsar umfangsmiklar samgönguframkvæmdir sem staðið hafa yfir undanfarin misseri og hefði verið haldið áfram þrátt fyrir efnahagshrunið. Einnig sagði hann ýmislegt framundan og væri þannig leitað nýrra leiða til fjármögnunar verkefna eins og fram hefur komið með stofnun sérstakra félaga um ákveðnar framkvæmdir sem ráðist yrði í með lánsfé frá lífeyrissjóðunum.

Leita ber nýrrar hugsunar

Þá gat Kristján um endurskoðun á sveitarstjórnarlögum sem nú er langt komin, sagði að unnið væri að útfærslu á fjármálareglum fyrir sveitarstjórnarstigið og framundan væru breytingar á regluverki Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga á grundvelli tillagna starfshóps sem lagði fram skýrslu sína fyrr í sumar. Þá sagði ráðherra frá undirbúningi að hagstjórnarsamningi ríkis og sveitarfélaga og starfi nefndar um endurskoðun á tekjustofnakerfi sveitarfélaga. Sagði hann það meginverkefni hennar að breikka og styrkja tekjustofna sveitarfélaga og væri stefnt að því að hún lyki störfum í september. Lagði ráðherra áherslu á að menn leituðu nýrrar hugsunar og nýrra tækifæri við rekstur og stjórnsýslu sveitarfélaga.

Um eflingu sveitarstjórnarstigsins sagði ráðherra að á næstu vikum yrðu tillögur verkefnastjórnar um sameiningu og fækkun sveitarfélaga kynntar á ársfundum landshlutasamkanna sem síðan færu til umræðu á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í lok september.

Sigurður Tómas Björgvinsson, sem verið hefur verkefnisstjóri í eflingu sveitarfélaga, kynnti hugmyndir um sameiningu sveitarfélaga í Húnavatnssýslum og Skagafirði. Varpaði hann fram hugmyndum um annað hvort eitt eða tvö sveitarfélög í stað 8 eins og nú eru í SSNV að Bæjarhreppi meðtöldum.

Eitt sveitarfélag hefur bolmagn til að sinna öllum núverandi verkefnum að mati Sigurðar og getur einnig tekið við nýjum stórum verkefnum frá ríkinu. Einnig að hagræðing myndi skila sér í bættri þjónustu. Tvö sveitarfélög sagð hann einnig hafa bolmagn tl að sinna öllum núverandi verkefnum en gæti ekki tekið við nýjum stórum verkefnum frá ríkinu. Hann sagði tvö sveitarfélög vera mildari leið og þannig yrðu til dæmis áhrif jaðarsvæða meiri.

Hvatt til umbóta

Að loknum ræðum ráðherra og Sigurðar Tómasar spurðu fundarmenn margs um eflingu sveitarfélaga og um samgöngumál. Þótti sumum fulltrúum sem lítið fjármagn færi til vegaframkvæmda í þessum byggðum í samgönguáætlun 2009 til 2013. Einnig var kvartað yfir gömlum vegum og að lítið hefði gerst í viðhaldi þeirra síðustu áratugina. Var ráðherra brýndur til að beita sér sérstaklega fyrir umbótum í þessum efnum í þessum landshluta. Einnig komu fram áhyggjur af skipulagsmálum sem tengjast hugsanlegum  flutningi Hringvegarins sunnan við Blönduós.

Í svörum ráðherra kom meðal annars fram að ýmis svæði í Norðuvesturkjördæmi sem eru verr stödd en byggðir í Húnaþingi og Skagafirði og minnti hann á sérstakt framlag til að leggja bundið slitlag á tengivegi. Dró hann einnig fram að mjög brýnt væri að ná fram vegabótum á sunnanverðum Vestfjörðum og þess sæi stað í samgönguáætlun. Meðan áhersla væri lögð á Vestfirði yrðu fjárframlög lægri annars staðar. Benti ráðherra einnig á að kostnaður við vegagerð hefði hækkað um 70% frá árinu 2007.

Ráðherra benti einnig á að hugmyndir um breytta legu vegar væru ekki komnar frá ráðuneytinu og meðan hann væri ráðherra yrðu slík verkefni ekki sett á samgönguáætlun. Frekar ætti til dæmis að leggja áherslu á að lækka vegarstæði á Holtavörðuheiði.

Þá hvatti ráðherra sveitarstjórnarmenn til að taka sameiningarmálin til umræðu og skiptast á skoðunum. Nauðsynlegt væri að ræða þessi atriði og ef niðurstaðan verður sú að sameiningar væru skynsamlegar þá eigi að hrinda þeim í framkvæmd.

 Frá ársfundi Sambands sveitarfélaga á Norðurlandi vestra

 

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta