Hoppa yfir valmynd
07.04.2011 Innviðaráðuneytið

Frumvarpi til nýrra sveitarstjórnarlaga dreift á Alþingi

Dreift hefur verið á Alþingi frumvarpi til nýrra sveitarstjórnarlaga sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra mun mæla fyrir á næstunni. Frumvarpið var unnið á síðasta ári af verkefnisstjóra og starfsmönnum sveitarstjórnarráðuneytisins og nefndar sem skipuð var þremur fulltrúum ráðherra og tveimur fulltrúum Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Hópurinn fékk það verkefni að vinna að heildarendurskoðun sveitarstjórnarlaga nr. 45/1998 meðal annars með hliðsjón af sameiginlegum markmiðum ríkis og sveitarfélaga um aukið lýðræði og þátttöku almennings í ákvörðunum sveitarstjórna, aukins samráðs ríkis og sveitarfélaga á sviði efnahagsmála, innleiðingu á fjármálareglum fyrir sveitarfélög og atriðum er varða starfshætti sveitarstjórna og starfsumhverfi sveitarstjórnarmanna.

Fjölmörg nýmæli

Fjölmörg nýmæli eru í frumvarpinu og snerta þau meðal annars fjármál sveitarfélaga. Þannig segir í 2. grein frumvarpsins að ráðherra sé falið það hlutverk að standa vörð um hagsmuni sveitarfélaganna, sjálfstjórn þeirra, verkefni og fjárhag. Í VII kafla frumvarpsins eru mörg nýmæli er varða fjármál sveitarfélaga, svo sem:

  • að ársreikningum og fjárhagsáætlunum skal skila fyrr en nú er (61. og 62. gr.)
  • að óheimilt er að víkja frá fjárhagsáætlun samkvæmt 1. mgr. nema sveitarstjórn hafi áður samþykkt viðauka við áætlunina (63. gr)
  • að skipta skal um endurskoðanda á fimm ára fresti
  • að hlutverk reikningsskila- og upplýsinganefndar er skilgreint í lögum.

Ennfremur er kveðið á um skýrari reglur um eftirlit með fjármálum sveitarfélaga svo sem varðandi skilyrði sem ráðherra getur sett um stjórn og fjármál sveitarfélaga (85. gr.). Settar eru fram nýjar reglur um kostnaðarmat lagafrumvarpa sem hafa veruleg heildaráhrif á fjármál sveitarfélaga.

Þá er lagt til að fella brott ákvæði um 50 íbúa lágmarksfjölda íbúa sveitarfélags og að héraðsnefndir verði lagðar niður. Inn kemur nýtt ákvæði um fjölda fulltrúa í sveitarstjórnum. Þýðing þeirrar breytingar felst fyrst og fremst í auknum fulltrúafjölda í Reykjavíkurborg sem verði 23 að lágmarki en 31 að hámarki.

Þá er í frumvarpinu ný heimild fyrir sveitarstjórnir til að setja sér, nefndum og starfsmönnum sveitarfélags siðareglur og um meðferð ágreiningsefna vegna brota á slíkum reglum. Í frumvarpinu eru einnig ákvæði um kynjakvóta í ákveðnar nefndir sveitarfélaga auk fleiri nýmæla.

Víðtækt samráð

Mikið samráð hefur verið haft við samningu frumvarpsins en drög þess voru kynnt almenningi á vef innanríkisráðuneytisins í byrjun árs. Fjölmargar athugasemdir og umsagnir bárust meðal annars frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, endurskoðunarfyrirtækjum, sveitarfélögum, auk annarra hagsmunasamtaka og einstaklinga. Drög að frumvarpinu voru til umræðu á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga í haust. Við lokagerð frumvarpsins var  fyrst og fremst tekið mið af niðurstöðum starfshópsins en einnig þeim fjölmörgu athugasemdum sem bárust ráðuneytinu auk þess sem starfshópurinn byggði tillögur sínar um fjármálareglur að nokkru leyti á skýrslu samráðsnefndar ríkis og sveitarfélaga um efnahagsmál sem gefin var úr 21. september 2010. 

 

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta