Drög að reglum um framlög úr Jöfnunarsjóði til eflingar tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun
Drög að reglum innanríkisráðherra um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til eflingar tónlistarnáms og jöfnunar á aðstöðumun nemenda liggja nú fyrir. Drögin eru birt hér á vefnum og óskað er eftir að þeir sem málið varðar kynni sér þau. Hægt er að koma á framfæri athugasemdum við Jöfnunarsjóð sveitarfélaga fyrir 29. júlí næstkomandi. á netfangið [email protected]
Forsaga málsins er sú að þann 13. maí síðastliðinn undirrituðu fulltrúar ríkis og sveitarfélaga samkomulag um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms. Helstu markmið samkomulagsins eru:
- að efla tónlistarnám með aðkomu ríkissjóðs að kennslukostnaði í viðurkenndum tónlistarskólum.
- að gera nemendum kleift að stunda hljóðfæranám á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldsstigi óháð búsetu.
Á grundvelli samkomulagsins er Jöfnunarsjóði sveitarfélaga heimilt að uppfylltum sérstökum skilyrðum að koma að kennslukostnaði sveitarfélaga vegna nemenda sem stunda nám á grunnstigi í söng og hljóðfæraleik og á miðstigi í hljóðfæragreinum utan síns sveitarfélags vegna framhaldsskólanáms.
Samkomulagið gildir frá 1. júlí 2011 til 31. ágúst 2013. Samkvæmt því greiðir ríkissjóður á ársgrundvelli 480 milljónir króna í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem annast úthutanir framlaga til sveitarfélaga. Á móti skuldbinda sveitarfélögin sig til að taka tímabundið yfir ný verkefni frá ríki sem nema 230 m.kr. á ársgrundvelli.
Stefnt er að setningu reglnanna í byrjun ágúst og í kjölfarið mun Jöfnunarsjóður sveitarfélaga óska eftir umsóknum frá sveitarfélögum um framlög til eflingar tónlistarnáms og jöfnunar á aðstöðumun nemenda vegna skólaársins 2011 – 2012 á sérstökum eyðublöðum sem verður hægt að nálgast á vefsíðu sjóðsins. Umsóknun ber að skila til sjóðsins fyrir 31. ágúst næstkomandi og munu upplýsingar um úthlutanir framlaga liggja fyrir eigi síðar en 30. september.
- Drög að reglum um framlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga til eflingar tónlistarnáms og jöfnunar á aðstöðumun nemenda
- Samkomulag um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms