Skógur að Fossá í Hvalfirði formlega opnaður
Skógurinn að Fossá í Hvalfirði var á laugardag tekinn inn í verkefnið Opinn skógur og opnaði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skóginn formlega við athöfn að viðstöddu fjölmenni. Jafnframt var Vigdísarlundur tekinn í notkun sem nefndur er eftir Vigdísi Finnbogadóttur, fyrrverandi forseta Íslands.
Skólahljómsveit Mosfellsbæjar tók á móti gestum með tónlist en dagskrá hófst á því að innanríkisráðherra klippti á borða og opnaði skóginn formlega og flutti ávarp. Því næst var gengið til skógar þar sem harmonikkutónlist tók á móti gestunum og síðan gengið að Vigdísarlundi. Flutt voru ávörp og Karlakór Kópavogs tók lagið auk þess sem Brynhildur Ásgeirsdóttir lék á þverflautu.
Markmiðið með verkefninu „Opinn skógur“ er að opna fjölmörg skógræktarsvæði í eigu og umsjón skógræktarfélaga og gera þau aðgengileg almenningi. Áhersla er lögð á að aðstaða og aðgengi sé góð og á að miðla upplýsingum og fræðslu um lífríki, náttúru og sögu. Þá hefur innanríkisráðuneytið styrkt Skógræktarfélag Íslands til að vinna að stígagerð, áburðargjöf, umhirðu og smíðavinnu í samráði við nokkur sveitarfélög og skógræktarfélög.