Bein útsending á netinu frá ráðstefnuum aukið lýðræði hjá ríki og sveitarfélögum
Sent verður beint út á netinu frá ráðstefnu um eflingu lýðræðis hjá ríki og sveitarfélögum sem innanríkisráðuneytið efnir til og hefst útsendingin hefst kl. 10:15. Ráðstefnan fer fram í Tjarnarsal Ráðhúss Reykjavíkur og stendur til kl. 17. Sendir verða út fyrirlestrar til kl. 14.15 en að þeim loknum tekur við vinna í umræðuhópum. Útsending hefst aftur kl. 16.15 þegar kynntar verða niðurstöður og samantekt.
Nefnd innanríkisráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga um eflingu sveitarstjórnarstigsins hefur annast undirbúning ráðstefnunnar sem ætluð er sveitarstjórnarfólki og öllu áhugafólki um aukið lýðræði.
Með ráðstefnunni vill innanríkisráðuneytið hvetja til aukinnar umræðu um hvernig efla má lýðræði í íslenskri stjórnsýslu og fjalla um hvort og hvernig koma megi á beinu lýðræði með aukinni og reglulegri þátttöku íbúa í ákvörðunum ríkis og sveitarfélaga.
Ráðstefnan fer fram á íslensku en mál erlendra fyrirlesara verður túlkað.
Í tengslum við ráðstefnuna verður jafnframt opnuð í Tjarnarsalnum sýningin: Nútímalegt beint lýðræði í Sviss og á Íslandi. Þar verður fjallað um þróun og fyrirkomulag beins lýðræðis og aukna þátttöku íbúa beggja landa.
Sýningin er á vegum Lagastofnunar Háskóla Íslands og mun stofnunin halda ráðstefnu 15. september á sama stað.