Hoppa yfir valmynd
15.09.2011 Innviðaráðuneytið

Auka þarf lýðræði hjá hinu opinbera og í atvinnulífi

Á síðari hluta ráðstefnu innanríkisráðuneytisins í gær um beint lýðræði og aukna þátttöku íbúa  störfuðu umræðuhópar og ræddu spurninguna um hvernig stuðla mætti að auknu beinu lýðræði og hvernig megi stuðla að aukinni þátttöku fólks. Komu þar fram margar ábendingar um að brýnt væri að koma á auknu lýðræði í sveitarstjórnum, ríki og til dæmis í atvinnulífinu.

Umræðuhópar að störfum.
Umræðuhópar að störfum.

Ráðstefnugestir skiptu sér í nokkra umræðuhópa sem fengu allir sömu viðfangsefnin og stýrðu Salvör Nordal, forstöðumaður Siðfræðistofnunar HÍ, og Óskar Dýrmundur Ólafsson, framkvæmdastjóri Vesturgarðs, umræðunum ásamt borðstjórum. Salvör gerði síðan grein fyrir hugmyndum umræðuhópanna í lok ráðstefnunnar.

Fram kom í kynningu hennar að sveitarstjórnum væri heimilt að framselja vald til íbúa, beint lýðræði væri sú leið sem virkjaði almenning milliliðalaust til ákvarðanatöku. Brýnt væri að fólki væri treyst til þýðingarmikillar ákvarðanatöku. Þá kom fram sú ábending að gefa yrði góðan tíma til umræðu þegar ákveðið mál skyldi tekið til sérstakrar atkvæðagreiðslu, slíkt væri til dæmis raunin í Sviss, þar sem tíma tæki að kynna mál og virkja fólk til samræðu. Einnig kom fram að eðlilegt væri að 10% íbúa gæti krafist atkvæðagreiðslu en ekki 20% eins og tillaga væri uppi í frumvarpi til nýrra sveitarstjórnarlaga.

Í lokaorðum sínum sagði Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra að fylgst hefði verið með ráðstefnunni um land allt gegnum útsendingu á netinu. Hann sagði margt áhugavert hafa komið fram í erindum dagsins og gott væri að heyra þá reynslu að fulltrúalýðræði og beint lýðræði væru ekki andstæður heldur tveir mismunandi þættir sem styddu hvor annan. Beint lýðræði gerði fulltrúalýðræðið árangursríkara eins og Bruno Kaufmann hefði bent á.

Ræður innanríkisráðherra og ávörp forseta Íslands og borgarstjóra má sjá neðst hér á síðunni auk kynninga annarra ræðumanna á ráðstefnunni og afraksturs hópaumræðu.

Valdið til fólksins

Innanríkisráðherra flytur ræður sína sem hann nefndi Valdið til fóksins.Innanríkisráðherra nefndi ræðu sína valdið til fólksins og sagði það gamalkunnugt baráttustef lýðræðissinna í gegnum aldirnar. ,,Lýðræði er fallegt orð um fallega hugsun, demokratiu eins og Grikkir kölluðu lýðræðið. Demos - fólkið, kratos - valdið: Kerfið þar sem fólkið hefur völdin,” sagði ráðherra og vitnaði til orða Periklesar í Pelopsskagastríðunum sem hann sagði magnaðan óð til frelsis og lýðræðis. Einnig vitnaði ráðherra til rits eftir frönsku frelsishetjuna úr síðari heimsstyrjöldinni, Stephane Hessel. Ritið heitir Indignez-vous, Tími til að reiðast. ,,Stephane Hessel var í útlagastjórninni frönsku á nasistatímanum, og einn af helstu höfundum Mannréttindayfirlýsingar Sameinuðu þjóðanna – Alheimsyfirlýsingarinnar  um mannréttindi – Universal Declaration of Human Rights – ekki hinni Alþjóðlegu yfirlýsingu um mannréttindi eins og Bretar og Bandaríkjamenn munu hafa viljað kalla hana. Universal skyldi hún heita ekki International – þótt í yfirlýsingunni sé að finna ákvæði um rétt til þjóðernis einsog það er kallað.”

Í ávörpum sínum á ráðstefnunni minntust bæði forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, og Jón Gnarr á hvernig ný tækni, netið og auðveldari samskipti hefðu breytt viðhorfum og verkefnum svo víða í samfélaginu.

Ragnhildur Hjaltadóttir, Regína Ásvaldsdóttir, Bruno Kaufmann og Jón Gnarr.Regína Ásvaldsdóttir, skrifstofustjóri borgarstjóra, fjallaði um þorpin í borginni og þá reynslu sem fengist hefði hjá Reykjavíkurborg af hugmyndum um nærþjónustu og íbúalýðræði, ræddi um þróun þessara hugmynda og hvað tækifæri væru framundan. Með samþættingu þjónustunnar og flutningi út í hverfið væru íbúar virkjaðir til þátttöku og ábyrgðar og því eðlilegt að því fylgdu ákveðin tækifæri eða völd til að hafa áhrif á mótun og þróun þjónustunnar. Sagði hún að lokum að hverfaskipulag gæti verið vettvangur til raunverulegs samráðs við íbúa.

Óskar Dýrmundur Ólafsson, framkvæmdastjóri Vesturgarðs, greindi frá nokkrum dæmum erlendis frá um dreifstýringu og möguleika íbúa á lýðræðislegri þátttöku. Sagði hann að almennt mætti segja um Norðurlönd að þjónusta og völd hefðu markvisst verið færð frá ríki til sveitarfélaga uppúr 1990 og að víða hefði verið tekin upp dreifstýring með hverfis- og svæðisráðum. Sagði hann að það sem yki þátttöku íbúa væri hvernig betur væru tengdar saman lýðræðislegar niðurstöður og framkvæmd og hvernig stuðlað væri að valdeflingu.

Gunnar Grímsson, framkvæmdastjóri samtakanna Sjálfseignarstofnunin Íbúar - samráðslýðræði, ræddi um rafræna forgangsröðun og reynsluna af ,,Betri Reykjavík”, samráðsvefjar og virkni. Sagði hann slíkan vef vera samvinnutæki fyrir stjórnendur og þar gætu jafningar skipst á hugmundum, rökum og upplýsingum. Vefurinn héti nú opin Reykjavík og væri ekki tilraunaverkefni heldur til frambúðar, bein rafræn tenging við borgarkefið og þar væru bein áhrif borgarbúa fest í sessi.

Málin rædd í umræðuhópum.Íris Ellenberger, stjórnarmaður í lýðræðisfélaginu Alda, fjallaði um beint lýðræði á sveitarstjórnarstigi. Hún ræddi mismunandi leiðir fyrir sveitarstjórnir að virkja almenning til þátttöku í ákvörðunum með því afsala hluta af völdum sínum til íbúanna. Þá fjallaði hún ítarlega um ýmis fordæmi fyrir beinu lýðræði erlendis frá með sérstaka áherslu á borgina Porto Alegre í Brasilíu þar sem íbúarnir ráðstafa sjálfir stórum hluta þess fjár sem borgin hefur yfir að ráða.

Svisslendingurinn Bruno Kaufmann, sem búsettur er í Svíþjóð og er sveitarstjórnarmaður í Falun, ræddi um beint fulltrúalýðræði og aukið mikilvægi þess í Sviss. Sagði hann Svisslendinga eiga alllanga sögu á þessu sviði og hún kæmi fram á öllum stjórnsýslustigum og birtist í frumkvæði íbúa, þjóðaratkvæðagreiðslum og lögbundnum kosningum.

Glærur, kynningar og upptökur af fyrirlesurum ásamt samantekt um afrakstur hópaumræðu:


 

 

 

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta