Hoppa yfir valmynd
05.10.2011 Innviðaráðuneytið

Ný sveitarstjórnarlög dæmi um náið samstarf ríkis og sveitarfélaga

Reglulegur samráðsfundur fulltrúa ríkis og sveitarfélaga var haldinn í dag hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Þar kynnti formaður sambandsins stefnumörkun þess fyrir árin 2011 til 2014, innanríkisráðherra ræddi samskipti ríkis og sveitarfélaga og fjármálaráðherra fór yfir þróun opinberra fjármála. Einnig voru rædd efnahagsmál og kjaramál.

Samkomulag um tónlistarmenntun undirritað. F.v. Steingrímur J. Sigfússon, Karl Björnsson, Halldór Halldórsson og Ögmundur Jónasson.
Samkomulag um tónlistarmenntun undirritað. F.v. Steingrímur J. Sigfússon, Karl Björnsson, Halldór Halldórsson og Ögmundur Jónasson.

Halldór Halldórsson sagði mikilvægi þessara samráðsfunda ótvírætt, fulltrúar ríkis og sveitarfélaga ræddu mikið saman meðal annars í svonefndri Jónsmessunefnd, þótt aðilar væru ekki alltaf sammála um niðurstöður. Þá kynnti hann stefnumörkunina sem sett er fram í nokkrum köflum og er birt á vef sambandsins. Þar er fjallað um kjaramál, tekjur, samskipti ríkis og sveitarfélaga lýðræði, jafnréttismál, húsnæðismál og fleira.

Mikilvæg nýjung í lögunum

Samráðsfundur_1



Karl Björnsson framkvæmdastjóri og Halldór Halldórsson, formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, Dagur B. Eggertsson borgarfulltrúi og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri í Garðabæ.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði samskipti ríkis og sveitarfélaga í góðum farvegi. Aðilar væru sammála um margt, færa ætti verkefni eins og kostur væri frá ríki til sveitarfélaga. Hann sagði nýju sveitarstjórnarlögin gott dæmi um samstarfið, þar væri á ferð yfirgripsmikill lagabálkur. Hann kvaðst ósáttur við breytingar á ákvæðum um lýðræðismálum varðandi möguleika íbúa til að óska eftir kosningum um ákveðin mál. Gert hefði verið ráð fyrir því að 20% atkvæðisbærra manna gætu krafist kosninga að undir ýmsum skilyrðum. Sveitarstjórnir hefðu samkvæmt þessu getað sett ákvæði um hvort kosning yrði bindandi, hvort ákveðið hlutfall kjósenda þyrfti til þess að svo væri. Ráðherra sagði að þrátt fyrir breytingar væri þetta mikilvæg nýjung í sveitarstjórnarlögunum.

Innanríkisráðherra nefndi einnig breytingar laganna sem varða fjármál og eftirlit með fjármálum sveitarfélaga. Þá sagði hann mikla vinnu framundan við að innleiða ákvæði laganna sem kallaði á áframhaldandi samstarf við sveitarfélögin. Meðal annars þyrfti að skipa samstarfsvettvang fyrir stjórnsýslu og lýðræðismál og um fjármál auk þess sem Jónsmessunefnd yrðu falin aukin verkefni. Einnig gat ráðherra um nefnd um eflingu sveitarstjórnarstigsins og lagði áherslu á að sveitarfélög yrðu ekki þvinguð til sameininga.

Samradsfundur3Einnig greindi innanríkisráðherra frá lagafrumvörpum sem leggja á fyrir Alþingi og snerta sveitarfélög. Þannig væri stefnt að endurskipulagningu sýslumanns- og lögregluembætta og fækkun þeirra sem hann sagði þurfa að gerast í samhengi. Einnig minnti hann á fyrirhugaða endurskipulagningu samgöngustofnana, frumvarp um persónukjör og sagði að ríki og sveitarfélög yrðu að vera samstiga um það. Frumvarp um breytingar á tekjustofnalögum sveitarfélaga væri í bígerð og yrði unnið í samráði við sveitarfélögin og samgönguáætlun yrði lögð fyrir Alþingi á næstu vikum.

Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra fór því næst yfir efnahagsforsendur fjárlagafrumvarpsins og stiklaði á stóru úr skýrslu um ríkisfjármál 2012 til 2015 sem finna má að vef fjármálaráðuneytisins. Eftir það fjallaði Gunnlaugur Júlíusson, sviðsstjóri hjá  sambandinu, um greinargerð frá samráðsnefnd um efnahagsmál og Gunnar Björnsson frá fjármálaráðuneytinu kynnti greinargerð frá samráðsnefnd um kjaramál.

Þá var á fundinum rætt um aukaframlög Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem er 700 milljónir króna í ár. Stefnumörkun sambandsins gerir ráð fyrir 1.200 milljóna króna aukaframlagi árin 2012 og 2013. Fram kom að ráðherrar hafi ákveðið að 300 milljónum króna af aukaframlagi þessa árs verði varið til Sveitarfélagsins Álftaness. Fulltrúar sambandsins óskuðu eftir að samþykkt verði 200 milljóna króna aukafjárveiting í fjáraukalögum til að koma til móts við þessi framlög Jöfnunarsjóðs til Álftaness en fjármálaráðherra lofaði engu um slíkt.

Að loknum fundi undirrituðu ráðherrarnir og formaður og framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga samkomulag um breytta verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga sem varða eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms. Auk þeirra mun mennta- og menningarmálaráðherra einnig rita undir samkomulagið.

 

 

 

 

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta