Hoppa yfir valmynd
02.11.2011 Innviðaráðuneytið

Viðmiðunarfjárhæðir Jöfnunarsjóðs vegna samkomulags um eflingu tónlistarnáms ákveðnar

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga hefur birt viðmiðunarfjárhæðir fyrir framlög úr sjóðnum til eflingar tónlistarnámi og jöfnunar á aðstöðumun nemenda. Greidd verða í dag, 2. nóvember, framlög fyrir fyrstu mánuðina, þ.e. júlí til október 2011.

Þann 13. maí sl. undirrituðu fulltrúar ríkis og sveitarfélaga samkomulag um eflingu tónlistarnáms og jöfnun á aðstöðumun nemenda til tónlistarnáms. Samkomulagið gildir frá 1. júlí 2011 til 31. ágúst 2013. Samkvæmt því greiðir ríkissjóður á ársgrundvelli 480 m.kr. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem annast úthlutanir framlaga til sveitarfélaga  á grundvelli sérstakra reglna sem innanríkisráðherra setur. Á móti skuldbinda sveitarfélögin sig til að taka tímabundið yfir ný verkefni frá ríki sem nema 230 m.kr. á ársgrundvelli.

Þann 31. ágúst sl. tóku gildi reglur sem innanríkisráðherra setti á grundvelli samkomulagsins um úthlutun framlaga úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til eflingar tónlistarnámi og jöfnunar á aðstöðumun nemenda.

Á grundvelli bráðabirgðaákvæða við reglurnar bar sveitarfélögum að skila umsóknum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga fyrir skólaárið 2011-2012 eigi síðar en 30. september 2011.  Úrvinnsla umsókna á grundvelli 2. mgr. 1. gr. reglnanna um framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til eflingar tónlistarnámi og jöfnunar á aðstöðumun nemenda hefur nú farið fram hvað þá nemendur varðar er stunda hljóðfæranám á framhaldsstigi og söngnám á mið- og framhaldsstigi.

Í ljósi fjölda innritaðra tónlistarnemenda á skólaárinu og skiptingu þeirra eftir tegund náms og námsstigi samkvæmt því sem fram kemur í umsóknum sveitarfélaga birtir Jöfnunarsjóður sveitarfélaga nú eftirfarandi viðmiðunarfjárhæðir fyrir skólaárið 2011-2012 sem tekið var mið af við úthlutun framlaga til sveitarfélaga.

  • Hljóðfæranám á framhaldsstigi 585.000 kr.
  • Söngnám á miðstigi 442.000 kr.
  • Söngnám á framhaldsstigi 733.000 kr.

Í ljósi þess að mun fleiri nemendur sóttu um framangreint tónlistarnám en ráð var fyrir gert  voru viðmiðunarfjárhæðirnar aðlagaðar að ráðstöfunarfjármagni sjóðsins.

Framlögin greiðast með jöfnum mánaðarlegum greiðslum til kennslusveitarfélaga nemendanna á tímabilinu september 2011 til ágúst 2012. Í ljósi gildistöku samkomulagsins eru aðilar þess sammála um að sömu mánaðarlegar greiðslur berist sveitarfélögum einnig vegna júlí og ágúst 2011. Framlög vegna júlí, ágúst, september og október koma því til greiðslu í dag, 2. nóvember 2011.

Viðmiðunarfjárhæðir vegna hljóðfæranáms á grunn- og miðstigi og söngnáms á grunnstigi, sbr. 7. gr reglnanna, munu verða birtar þegar úrvinnsla hefur farið fram á umsóknum lögheimilissveitarfélaga nemendanna þar að lútandi.

 

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta