Hoppa yfir valmynd
15.03.2012 Innviðaráðuneytið

Ögmundur Jónasson tók þátt í ráðstefnu um sveitarstjórnarmál á Grænlandi

Innanríkisráðherra Grænlands, Anton Frederiksen, bauð Ögmundi Jónassyni innanríkisráðherra og Kára Höjgaard, ráðherra sveitarstjórnarmála í Færeyjum, að vera viðstaddir fund forsvarsmanna allra sveitarfélaga á Grænlandi í vikunni. Ögmundur flutti þar ræðu þar sem hann fjallaði meðal annars um sameiningar sveitarfélaga og lýðræði í sveitarstjórnum.

Sveitarfélögum í Grænlandi var fækkað úr 18 í 4 fyrir þremur árum og þau eru sum hver mjög víðfeðm.
Sveitarfélögum í Grænlandi var fækkað úr 18 í 4 fyrir þremur árum og þau eru sum hver mjög víðfeðm.

Fyrir þremur árum voru 18 sveitarfélög Grænlands sameinuð í fjögur og efndi landsstjórnin til ráðstefnu þar sem rætt var um reynslu af þessari viðamiklu sameiningu og hvernig mætti vinna áfram að því að efla sveitarstjórnarstigið. Einnig var rætt um lýðæði á sveitarstjórnarstiginu og var ráðherrum sveitarstjórnarmála á Íslandi og í Færeyjum boðið að taka þátt í ráðstefnunni. Auk ráðstefnunnar heimsótti innanríkisráðherra bæjarskrifstofurnar í Nuuk en sveitarfélagið nær frá Nuuk til allra bæja á austurströndinni. Er það álíka stórt að flatarmáli og Frakkland og Portúgal til samans.

Þrír ráðherrar ræddu sveitarstjórnarmál á Grænlandi, frá vinstri: Kari Höjgaard frá Færeyjum, Josef Motzfeldt frá Grænlandi og Ögmundur Jónasson frá Íslandi.Ögmundur Jónasson sagði í ræðu sinni á ráðstefnunni að margt væri líkt með Grænlandi og Íslandi, til dæmis að sveitarfélög landanna næðu mörg hver yfir stór landsvæði og væru strjálbýl. Munurinn væri líka margs konar, meðal annars sá að á Íslandi væru mörg sveitarfélög fámenn. Krefjandi væri fyrir sveitarstjórnir að geta boðið hliðstæða þjónustu á öllum sviðum hvar sem menn kysu sér búsetu innan þeirra, í þéttbýli eða dreifbýli.

Ögmundur ræddi hvernig efling sveitarstjórnarstigsins hefði verið ofarlega á dagskrá yfirvalda bæði í Grænlandi og á Íslandi og hefðu löndin glímt við hliðstæð verkefni á þeim sviðum. Hann gat um hvernig sveitarfélögum á Íslandi hefði fækkað ört síðustu árin en að þörf væri á enn frekari sameiningum  til að efla og styrkja sveitarfélögin. Hann sagði að rætt hefði verið um sameiningar með lögum en nú væri breið samstaða um frjálsar sameiningar og aukið samstarf um ýmsa þjónustu sveitarfélaga. Einnig sagði ráðherra samstöðu um það innan ríkisvalds og samtaka sveitarfélaga að efla þau enn frekar með flutningi verkefna frá ríki til sveitarfélaga.

Þá minntist ráðherra á ný sveitarstjórnarlög sem tóku gildi í ársbyrjun og þau ákvæði þeirra sem gera íbúum kleift að óska eftir því að mál séu lögð fyrir í íbúakosningu. Sagði hann það mikilvægt skref í lýðræðisátt og enda mætti ekki gleyma því að íbúar ættu að ráða málum sínum sjálfir í kjörnum sveitarstjórnum og með möguleika til íbúakosninga. Einnig gat hann um mikilvægi þess að viðhafa rafræna stjórnsýslu og samskipti þannig að íbúar gætu í eins miklum mæli og unnt er afgreitt mál sín sjálfir með tölvusamskiptum.

 

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta