Hoppa yfir valmynd
18.07.2012 Innviðaráðuneytið

Ýmsir hagræðingarmöguleikar með rafrænni stjórnsýslu

Stýrihópur sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra skipaði nýlega til að fjalla um rafræna stjórnsýslu hefur nú haldið þrjá fundi. Í fyrstu er lögð áhersla á að ræða þær áskoranir sem í verkefninu felast, greina stöðuna og meta aðgerðir til að lágmarka áhættu og útiloka hindranir.

Karl Björnsson, framkvæmdastjóri Sambands íslenskra sveitarfélaga, fagnar þeirri samvinnu sem tekist hefur með ráðuneytinu og sambandinu til að vinna að þessu verkefni og segir hann kominn tíma til að ríki og sveitarfélög taki höndum saman um að tölvuvæða kosningar.

Samband íslenskra sveitarfélaga tilnefndi tvo fulltrúa í stýrihópinn, þau Önnu Guðrúnu Björnsdóttur, sviðsstjóra hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, og Hjört Grétarsson, upplýsingatæknistjóra hjá Reykjavíkurborg. Aðrir í hópnum eru Þorleifur Gunnlaugsson, varaborgarfulltrúi og jafnframt formaður, Guðbjörg Sigurðardóttir, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, og Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri í innanríkisráðuneytinu, öll tilnefnd af ráðherra. Með hópnum starfar Halla Björg Baldursdóttir, forstöðumaður rafrænnar stjórnsýslu hjá Þjóðskrá Íslands, en auk hennar mun Árni Gíslason, stjórnmálafræðinemi aðstoða hópinn.

Karl Björnsson skrifar grein í Sveitarstjórnarmál sem birt er á vef sambandsins og vekur þar athygli á tillögum nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins en í blaðinu er einnig viðtal við Þorleif Gunnlaugsson, formann nefndarinnar. Kemur þar fram að miklir hagræðingarmöguleikar felist í eflingu rafrænnar þjónustu. Karl segir að á næstu mánuðum séu ýmsar kosningar í vændum og segir allt stefna í að þær verði framkvæmdar á hefðbundinn hátt ,,sem hlýtur að teljast nokkuð gamaldags eins og sagt er og lýsir varla metnaði og framsækni af hálfu okkar Íslendinga í þessum efnum,” segir hann og bendir á að hverjar kosningar kosti kringum 250 milljónir króna. ,,Með sameiginlegu átaki og miklum áhuga og vilja munum við ná árangri á þessu sviði. Tækifærin eru handan við hornið og við skulum grípa þau sem allra fyrst,” eru lokaorð greinar Karls.

 

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta