Hoppa yfir valmynd
31.08.2012 Innviðaráðuneytið

Náin tengsl þurfa að vera milli byggðamála og sveitarstjórnarmála

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði í ávarpi sínu á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi að hann sæi fyrir sér að byggðamál myndu færast undir regnhlíf innanríkisráðuneytisins enda þyrftu náin tengsl að vera milli sveitarstjórnarmála og byggðamála. Ráðherra sagði þetta nú til athugunar í stjórnarráðinu, Byggðastofnun myndi vistast í hinu nýja atvinnuvegaráðuneytinu til áramóta en gengið yrði nánar frá lausum endum málsins á næstu vikum.

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi.
Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi.

Innanríkisráðherra rifjaði upp í ávarpi sínu að eitt fyrsta verkefni hans í embætti ráðherra hefði verið að ávarpa aðalfund samtakanna sem haldinn var í Ólafsvík haustið 2010. Hann sagði hafa það komið sér á óvart hversu gott og náið samstarf hefði verið milli ráðuneytis sveitarstjórnarmála og landshlutasamtaka og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Sagði hann þessi samskipti fara frekar vaxandi á mörgum sviðum. Nefndi hann sem dæmi samningu lagafrumvarps um ný kosningalög þar sem hugmyndir hefðu í raun komið upp hjá báðum aðilum og nú lægi fyrir hugmynd um aukið vægi persónukjörs sem fæðst hefði með samvinnu ráðuneytisins og Sambands íslenskra sveitarfélaga.

Einnig nefndi hann það samstarf sem tekist hefði milli samgönguyfirvalda og landshlutasamtaka sveitarfélaga varðandi breytt skipulag almenningssamgangna og sagði að um helgina yrði kynntur samningur um slíkan akstur um Vesturland eða milli höfuðborgarsvæðisins og allt til Akureyrar. Þetta hefði sprottið af samstarfi milli landshlutasamtaka, ráðuneytisins og Vegagerðarinnar.

Svipmynd frá Ögmundur JónassSvipmynd frá aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi.Þá gerði ráðherra að umtalsefni þá þróun sem verið hefði í eflingu sveitarfélaga, að í stað þess að knýja fram sameiningar og stækka einingarnar væru sveitarfélögin að eflast með auknu samstarfi um ákveðin verkefni, til dæmis með því að taka sameiginlega við ýmsum verkefnum á sviðum sem tengjast málefnum fatlaðra. Hann minnti á nýlega könnun um vilja stjórnmálamanna um sameiningar sveitarfélaga sem væru æ meira á því að koma á auknu samstarfi um einstök verkefni fremur en að boða til lögþvingaðrar sameiningar. Sagði hann þessa þróun einnig hafa komið fram á fundi norrænna sveitarstjórnarráðherra sem hann sat nýverið.

Einnig greindi ráðherra frá starfshópi um rafræna stjórnsýslu sem starfað hefði um hríð undir forystu Þorleifs Gunnlaugssonar en ljóst væri að margháttaður fjárhagslegur ávinningur yrði að því að taka upp til dæmis rafrænar kosningar.

Í lokin sagði innanríkisráðherra frá því að á liðnum vikum hefði verið unnið að mótun innanríkisstefnu í ráðuneytinu. Ætlunin væri að freista þess að skapa heildstæða sýn ráðuneytisins á þá mörgu þætti sem móta innanríksstefnu, horfa til þess ágæta starfs sem unnið hefði verið á vegum sóknaráætlunar 2020. Sagði hann ætlunina að leita eftir samráði við sveitarfélög og myndu landshlutasamtökin fá beiðni þar um í næstu viku.

 

 

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta