Hoppa yfir valmynd
26.09.2012 Innviðaráðuneytið

Jöfnunarsjóður sveitarfélaga nauðsynlegur vettvangur í samskiptum ríkis og sveitarfélaga

Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra sagði á ársfundi Jöfnunarsjós sveitarfélaga sem haldinn var í dag að sjóðurinn væri nauðsynlegur vettvangur umræðu og samskipta ríkis og sveitarfélaga um fjármál sveitarfélaga. Hann sagði ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðsins vera eins konar brú á milli ríkis og sveitarfélaga og væru fjórir af fimm fulltrúum hennar tilnefndir af Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var haldinn í dag.
Ársfundur Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var haldinn í dag.

Á fundinum sem nú er haldinn í fimmta sinn flutti Elín Pálsdóttir, forstöðumaður Jöfnunarsjóðs, skýrslu um starf og fjárhag sjóðsins, Guðni Geir Einarsson, sérfræðingur hjá Jöfnunarsjóði, ræddi um Fasteignasjóð Jöfnunarsjóðsins og síðan voru flutt tvö erindi um reikningsskil sveitarfélaga í tengslum við flutning á málefnum fatlaðra. Kristján Jónasson, formaður reikningsskila- og upplýsinganefndar, ræddi um álit nefndarinnar og Sigurður Helgason ráðgjafi fjallaði um valkosti við framsetningu á fjárhagslegum upplýsingum Jöfnunarsjóðs.

Ögmundur Jónasson ávarpaði ársfund Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga í dag.

Ögmundur Jónasson sagði einnig í ávarpi sínu að starfsemi Jöfnunarsjóðs yrði sífellt umfangsmeiri, árið 2010 hefðu kringum 20 milljarðar króna farið gegnum sjóðinn en upphæðin í fyrra hefði verið um 29 milljarðar. Hækkunin stafaði einkum af því aukna fjármagni sem sjóðnum hefði verið falið að úthluta sveitarfélögum sem í fyrra tóku við málefnum fatlaðra. Þá sagði hann umhugsunarvert hversu sveitarstjórnarstigið væri orðið umfangsmikið, kringum þriðjungur af heildarútgjöldum hins opinbera í dag færu um sveitarstjórnarstigið. Í inngangi að ársskýrslu Jöfnunarsjóðs skrifar innanríkisráðherra meðal annars að Jöfnunarsjóðurinn hefði verið sveitarfélögum ómetanlegur farvegur til að jafna aðstöðumun þeirra. Sjóðnum hefðu verið falin sífellt aukin verkefni ýmist jöfnunaraðgerðir eða tímabundin verkefni.

Elín Pálsdóttir fjallaði í skýrslu sinni um helstu þætti í starfsemi Jöfnunarsjóðs og greindi frá breytingum sem unnið hefur verið að á regluverki sjóðsins. Einnig greindi hún frá ársreikningi Jöfnunarsjóðs en þar kemur meðal annars fram að heildarframlög sjóðsins til sveitarfélaga námu rúmum 29 milljörðum króna á síðasta ári. Gert er ráð fyrir að þessi upphæð nemi rúmum 30 milljörðum á þessu ári.

 

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta