Frumvarp um persónukjör vegna sveitarstjórnarkosninga í undirbúningi
Rafræn stjórnsýsla og persónukjör við sveitarstjórnarkosningar var meðal þess sem Ögmundur Jónasson innanríkiráðherra ræddi í ávarpi sínu á aðalfundi Sambands sveitarfélaga á Suðurnesjum síðastliðinn laugardag en fundurinn var haldinn í Sandgerði. Einnig minntist ráðherra á sóknaráætlun og lýsti ánægju sinni með gott samstarf sveitarfélaga og innanríkisráðuneytisins.
Innanríkisráðherra sagði hugmyndina um persónukjör við sveitarstjórnarkosningar hafa verið rædda í nefnd fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga og ráðuneytisins. Sagði hann slíka breytingu á kosningalögunum aðeins verða gerða í samráði við sveitarfélögin og kvaðst vonast til að leggja mætti fyrir Alþingi bráðlega frumvarp er varðaði málið. Sagði hann nefnd hafa unnið ötullega að málinu og minnti á umræðuskjal á vef innanríkisráðuneytisins þar sem hugmyndin væri skýrð ítarlega út.
Þá greindi ráðherra frá innanríkisstefnu sem nú væri í undirbúningi í ráðuneytinu og væri leitað víðtæks samráðs við verkefnið. Með innanríkisstefnu væru settar fram nokkrar aðgerðaráætlanir og félli þessi vinna vel saman við verkefnið um sóknaráætlun og hvernig sveitarfélög gætu unnið saman að margs konar verkefnum án þess að sameining þeirra væri aðalatriðið.
Ögmundur ræddi einnig erfiða fjárhagsstöðu ríkis og sveitarfélaga undanfarin misseri og sagði niðurskurð hjá innanríkisráðuneytinu nema kringum 20 til 25% frá fjármálahruninu. Yfirvöld hefðu reynt að mæta þessu með réttlátri blöndu af tekjuöflun og niðurskurði á útgjöldum. Hann sagði þetta ástand kalla á mjög markvissa ráðstöfun á takmörkuðum fjármunum og þar sætu bæði ríki og sveitarfélög yfir sams konar vanda. Ráðherra gerði hugsanlegan flutning á starfsemi Landhelgisgæslunnar til Suðurnesja að umtalsefni og sagði að slíkt yrði ekki gert nema að mjög vandlega athuguðu máli. Tengdi hann þetta umfjöllun um björgunarstörf á Norðurslóðum og þeirri hugmynd að á Íslandi yrði eins konar þungamiðja fyrir slíkt verkefni enda aðstaða hér góð á mörgum sviðum sem nauðsynleg væru slíkri starfsemi.