Skipun fjárhaldsstjórnar Sveitarfélagsins Álftaness framlengd til áramóta
Innanríkisráðherra hefur framlengt skipunartíma fjárhaldsstjórnar Sveitarfélagsins Álftaness til áramóta en skipunartími hennar á að renna út um næstu mánaðamót.
Skipunin er framlengd til að tími gefist til að ljúka þeim fjárhagslegu samningum sem fjárhaldsstjórnin hefur haft með höndum vegna endurskipulagningar á fjármálum sveitarfélagsins. Hraðað verður vinnu við að ljúka framangreindum samningum og verði þeim lokið fyrir áramót er formlegum verkefnum fjárhaldsstjórnar lokið verður hún þá leyst frá störfum. Fjárhaldsstjórnin var skipuð 2010 og hefur skipunartími hennar verið framlengdur nokkrum sinnum en nú sér fyrir endann á þessu verkefni.
Kosið var um sameiningu Sveitarfélagsins Áftaness og Garðabæjar 20. október síðastliðinn og eins og fram hefur komið á vef ráðuneytisins var hún samþykkt í báðum sveitarfélögunum. Gert er ráð fyrir að sameiningin taki gildi um áramótin og að bæjarstjórn Garðabæjar muni frá þeim tíma fara með málefni sveitarfélagsins en bæjarstjórn Álftaness gegna hlutverki ráðgefandi hverfisstjórnar.