Hoppa yfir valmynd
23.11.2012 Innviðaráðuneytið

Frumvarp um rafrænar íbúakosningar sveitarfélaga og rafræna kjörskrá

Ríkisstjórnin hefur samþykkt lagafrumvarp sem Ögmundur Jónasson innanríkisráðherra kynnti nýverið um að sveitarfélögum yrði gert kleift að íbúakosning fari eingöngu fram með rafrænum hætti og að kjörskrá vegna íbúakosninga verði rafræn. Frumvarpið hefur einnig verið samþykkt í þingflokkum stjórnarflokkanna og mun innanríkisráðherra mæla fljótlega fyrir því á Alþingi.

Lagafrumvarpið tekur til breytinga á X. kafla sveitarstjórnarlaga nr. 138/2011 sem fjallar um samráð við íbúa og er gert ráð fyrir að heimildin verði veitt tímabundið fyrir árin 2014 til 2018 eða yfir eitt kjörtímabil sveitarstjórna. Tilefni lagabreytinganna er meðal annars að koma til móts við tillögur nefndar um eflingu sveitarstjórnarstigsins um aukna möguleika á rafrænni fram­kvæmd í íbúakosningum og styðja við þróun rafræns lýðræðis í sveitarfélögum.

Frumvarpið snertir öll sveitarfélög landsins enda er markmið þess meðal annars að þróa tæki eða aðferðir til þess að auðvelda þeim að kanna vilja íbúa þeirra til ýmissa mála. Um leið snertir frumvarpið íbúa þessara sömu sveitarfélaga þar sem því er ætlað að auð­velda þeim að hafa áhrif á stjórnun og stefnumótun sveitarfélaganna. Við gerð frumvarpsins var litið til nágrannalanda okkar, sérstaklega Noregs, og reynsla þeirra í þessu efni skoðuð. Auk þess var hliðsjón höfð af þeim skýrslum og gögnum, sem unnin hafa verið hér á landi, varðandi rafrænt lýðræði. Frumvarpið var unnið í góðri samvinnu við Samband íslenskra sveitarfélaga og Þjóðskrá Íslands.

Í mars 2011 skipaði innanríkisráðherra nefnd sem hafði það hlutverk að vinna að frekari eflingu sveitarstjórnarstigsins. Nefndin fjallaði um stöðu verkefna sem miða að því að efla sveit­arstjórnarstigið, verkefni sem hafa verið í vinnslu á vettvangi stjórnvalda og Sambands ís­lenskra sveitarfélaga. Meðal þess sem nefndin fjallaði um voru áherslur á aukið íbúalýðræði og nýjar leiðir í þeim málum og rafræn stjórnsýsla. Í febrúar 2012 skilaði nefndin af sér skýrslu með 23 tillögum um aðgerðir til að efla sveitarstjórnarstigið. Níu þessara tillagna taka til atriða er varða rafræna stjórnsýslu og lýðræði og er þar m.a. lagt til að innanríkis­ráðu­neytið hafi forgöngu um, í samvinnu við sveitarstjórnarstigið, að greiða fyrir rafrænni fram­kvæmd undirskriftasafnana, skoðanakannana, íbúakosninga og annarra rafrænna þátttöku­möguleika almennings og að hafist verði handa við tilraunaverkefni í framkvæmd undir­skrifta­safnana, skoðanakannana og fleiri þátta í þeim tilgangi að byggja upp þekkingu opin­berra aðila og efla traust almennings á slíkri framkvæmd.

Tímabundin ráðstöfun

Sveitarstjórnarkosningar fara fram vorið 2014 og mun verkefnið því taka til a.m.k. eins kjörtímabils. Er það talinn góður tímarammi til þess að unnt verði að meta reynslu og þann árangur sem verkefnið mun hafa á þróun rafræns lýðræðis í sveitarfélögum landsins þannig að unnt verði að stíga næstu skref í þeirri þróun. Um er að ræða reynsluverkefni sem sveitarfélög geta óskað eftir að taka þátt í. Gert er ráð fyrir að lögin taki þegar gildi en hins vegar er ljóst að nokkurn tíma þarf til undirbúnings. Semja þarf reglugerð og undirbúa tæknileg framkvæmdaatriði svo hið rafræna lýðræði, sem kveðið er á um í frumvarpinu, verði virkt. Rafrænar íbúakosningar og rafrænar kjörskrár munu því ekki verða að veruleika fyrr en reglugerð þar að lútandi hefur verið sett og fundin lausn á tæknilegum atriðum.

 

 

 

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta