Hoppa yfir valmynd
19.12.2012 Innviðaráðuneytið

Landshlutar skila sóknaráætlunum um miðjan febrúar 2013

Samráðsfundur stýrinets Stjórnarráðsins um sóknaráætlanir landshluta og formanna og framkvæmdastjóra landshlutasamtaka sveitarfélaga var haldinn í síðustu viku. Þar kom fram að vinnan við sóknaráætlanir fer vel af stað í öllum átta landshlutunum og lofar góðu fyrir framhaldið. Landshlutarnir eru komnir mislangt með vinnuna en munu skila sóknaráætlunum sínum til stýrinetsins 15. febrúar 2013.

Sóknaráætlanir landshluta voru ræddar á fundi í síðustu viku.
Sóknaráætlanir landshluta voru ræddar á fundi í síðustu viku.

Sóknaráætlanir landshluta eru eitt af 29 verkefnum Ísland 2020. Markmiðið með verkefninu er að færa ákvarðanatöku nær heimamönnum sem þekkja best til aðstæðna á hverjum stað. Það er meðal annars gert með því að veita landshlutunum aukin völd og aukna ábyrgð á forgangsröðun og útdeilingu almannafjár til verkefna á sviði byggða- og samfélagsþróunar sem ekki eru falin öðrum með lögum.

Nýsköpun í íslenskri stjórnsýslu

Verklagið sem sóknaráætlanir fela í sér er nýsköpun í íslenskri stjórnsýslu. Verklagið byggir meðal annars á þrenns konar samvinnu. Samvinnu stjórnsýslustiganna tveggja, ríkis og sveitarfélaga, samvinnu sveitarfélaga í gegnum landshluta­samtök þeirra og samráðsvettvanga  og samvinnu ráðuneyta í gegnum sérstakt stýrinet Stjórnarráðsins um sóknaráætlanir landshluta. Stýrinetið er skipað fulltrúum allra ráðuneyta auk fulltrúa Sambands íslenskra sveitarfélaga. Verkefnið er samstarfsverkefni ráðuneytanna en er staðsett í innanríkis­ráðuneytinu sem fer með formennsku.

Það er skýr vilji stjórnvalda að reyna það verklag sem sóknaráætlanir fela í sér og í því skyni hefur ríkisstjórnin samþykkt að setja 400 milljónir króna í sóknaráætlanaverkefni árið 2013 sem skiptast á milli landshlutanna átta eftir gegnsæjum viðmiðum. Hverjum landshluta er falið að ákveða á grundvelli sóknaráætlana hvernig fjármagninu verður varið. Árið 2013 verður reynsluár þar sem það er formið frekar en fjármagnið sem er hvað mikilvægast. Fjármagnið er þó engu að síður mikilvægt, en með því gefst gott tækifæri til að reyna verklagið. Ef vel tekst til þá er áætlað að auka fjármagnið strax á árinu 2014.

Sóknaráætlanir landshluta voru ræddar á fundi í síðustu viku.

Hver landshluti hefur sína aðferð við gerð sóknaráætlunar en allir eiga þeir það sameiginlegt að stofnað er til samráðsvettvangs sveitarstjórnarmanna og hagsmunaaðila og að ábyrgð á sóknaráætlun og útdeilingu fjármuna er hjá stjórn landshlutasamtakanna. Hlutverk samráðsvettvanga er að móta framtíðarsýn og stefnu og forgangsraða markmiðum og aðgerðum fyrir hvern landshluta. Til að byrja með verða verkefni á sviði atvinnumála og nýsköpunar, markaðsmála og mennta- og menningarmála fjármögnuð í gegnum sóknaráætlun. Í kjölfarið er gert ráð fyrir að aðrir þættir er snúa að byggðamálum, svo sem velferðarmál og þróun innviða, falli undir sama verklag. Nú þegar hafa samráðsvettvangar í nokkrum landshlutum komið saman en beðið er eftir síðustu tilnefningum hjá öðrum. Fulltrúar eru á bilinu 30-80 manns.

Stöðugreiningar til samanburðar

Að beiðni stýrinetsins hefur Byggðastofnun unnið stöðugreiningu á nokkrum mikilvægum samfélagsþáttum fyrir alla landshluta þar sem fram koma meðal annars tölur um íbúafjölda, hagvöxt, búsetu og menntun íbúa. Stöðugreiningin nýtist vel í upphafi sóknaráætlana þannig að hægt er að bera saman þróun þeirra milli tímaskeiða í hverjum landshluta og á milli landshluta. Lokadrög þessara greininga er hægt að sækja hér. Stöðugreiningarnar eru settar fram á myndrænan hátt með stuttum texta til þess að auðvelda samanburð nokkurra mikilvægra þátta og umræður um sóknaráætlanirnar.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta