Lengri frestur til að fjalla um stjórn og fundarsköp sveitarstjórna
Alþingi hefur samþykkt þá breytingu á sveitarstjórnarlögum að framlengja frest í ákvæði til bráðabirgða um samþykktir um stjórn sveitarfélaga og fundarsköp sveitarstjórnar. Er frestur veittur til 30. júní 2013.
Í ákvæði til bráðabirgða IV í sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, sagði að samþykktir um stjórn og fundarsköp sveitarfélaga skuli halda gildi sínu til 1. janúar 2013. Í 2. mgr. 9. gr. laganna segir að ráðuneytið skuli semja fyrirmynd að samþykkt um stjórn sveitarfélaga og fundarsköp sveitarstjórnar og birta í Stjórnartíðindum. Gerð fyrirmyndarinnar var ekki lokið fyrr en í nóvember síðastliðnum og var hún birt 20. nóvember 2012 með auglýsingu nr. 976/2012.
Samkvæmt ákvæðum 18. gr. sveitarstjórnarlaga þurfa samþykktir um stjórn og fundarsköp tvær umræður í sveitarstjórn og var ljóst að sveitarstjórnir munu ekki geta lokið vinnu við gerð nýrra samþykkta né heldur fengið þær staðfestar af ráðuneytinu og birtar í B-deild Stjórnartíðinda fyrir 1. janúar 2013.
Með þessari breytingu gefst nægur tími bæði til að semja og samþykkja nýjar samþykktir.