Hoppa yfir valmynd
19.03.2013 Innviðaráðuneytið

Framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á árinu 2013

Innanríkisráðherra hefur samþykkt eftirfarandi tillögur ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga um endurskoðaðar áætlanir um úthlutanir framlaga á árinu 2013:

Útgjaldajöfnunarframlög

Farið hefur fram endurskoðun á áætlaðri úthlutun útgjaldajöfnunarframlaga fyrir árið 2013, skv. 13. gr. reglugerðar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga nr. 960/2010. Við endurskoðunina var tekið mið af leiðréttum hámarkstekjum á íbúa í hverju sveitarfélagi og íbúafjölda í sveitarfélögum 1. janúar 2013.

Að tillögu ráðgjafarnefndar nemur áætluð heildarúthlutun útgjaldajöfnunarframlaga í ár 5.350 m.kr. og er um 250 m.kr. hækkun á heildarúthlutun framlaganna að ræða frá fyrri áætlun. Til úthlutunar nú hafa komið framlög samtals að fjárhæð 5.175 m.kr.  Þar af nema framlög vegna skólaaksturs úr dreifbýli 575 m.kr. Í desember koma til úthlutunar og greiðslu viðbótarframlög að fjárhæð allt að 175 m.kr. vegna íþyngjandi kostnaðar sveitarfélaga af skólaakstri úr dreifbýli á árinu 2013 umfram tekjur.  Uppgjör framlaganna fer fram í desember.

Almenn jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla

Farið hefur fram endurskoðun á áætlaðri úthlutun almennra jöfnunarframlaga til reksturs grunnskóla fyrir árið 2013, skv. 3. gr. reglugerðar um jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla nr. 351/2002. Við  endurskoðunina var tekið mið af endanlegum útsvarsstofni sveitarfélaga vegna tekna ársins 2011 og áætlun um útsvarstekjur sveitarfélaga á árinu 2012. Jafnframt var áætlunin uppfærð hvað varðar fjölda íbúa á grunnskólaaldri í hverju sveitarfélagi 1. janúar 2013.

Að tillögu ráðgjafarnefndar nemur áætluð heildarúthlutun  almennra jöfnunarframlaga til reksturs grunnskóla í ár 5.442 m.kr. Þar af eru leiðréttingar á framlögum ársins 2011 að fjárhæð 60 m.kr.

Framlög vegna sérþarfa fatlaðra nemenda

Farið hefur fram endurskoðun á áætlaðri úthlutun framlaga vegna sérþarfa fatlaðra nemenda á grunnskólaaldri, skv. 4. gr. reglugerðar nr. 351/2002.

Að tillögu ráðgjafarnefndar nemur áætluð heildarúthlutun framlaga vegna sérþarfa fatlaðra nemenda í ár 1.866,5 m.kr. Þar af nemur framlag til Reykjavíkurborgar vegna reksturs sérskóla og sérdeilda 945,0 m.kr. að viðbættri leiðréttingu vegna ársins 2011 að fjárhæð 70,5 m.kr.

Framlög vegna nýbúafræðslu

Farið hefur fram endurskoðun á áætlaðri úthlutun framlaga vegna sérstakrar íslenskukennslu nýrra Íslendinga, skv. 5. gr. reglugerðar nr. 351/2002.

Að tillögu ráðgjafarnefndar nemur áætluð heildarúthlutun framlaga vegna sérstakrar íslenskukennslu nýrra Íslendinga  í ár  167,6  m.kr.

Framlög vegna greiðslu sveitarfélaga á húsaleigubótum

Þann 1. janúar sl. tók gildi reglugerð nr. 1205/2012 um breytingu á reglugerð velferðarráðuneytisins um húsaleigubætur, nr. 118/2003 með síðari breytingum. Með breytingunni á reglugerðinni, sem einkum nær til tekjuskerðingarmarka, tekjuskerðingarhlutfalls og grunnfjárhæðar almennra húsaleigubóta eru stigin fyrstu skref  í átt að nýju húsnæðisbótakerfi sem innleitt verður í áföngum.

Með tilvísun til framangreindrar breytingar á reglugerð velferðarráðuneytisins og hækkunar á ráðstöfunarfjármagni Jöfnunarsjóðs henni samfara um 1.000 m.kr. var aflað nýrra upplýsinga frá sveitarfélögunum um áætlaðar greiðslur þeirra á almennum og sérstökum húsaleigubótum á árinu 2013.

Endurskoðuð áætlun sveitarfélaga um heildargreiðslur almennra húsaleigubóta á árinu 2013 nemur um 4.385 m.kr. Að  teknu tilliti til áætlunar um ráðstöfunarfjármagn sjóðsins að fjárhæð 2.836 m.kr. leggur ráðgjafarnefndin til að endurskoðað greiðsluhlutfall Jöfnunarsjóðs vegna almennra húsaleigubóta nemi 64% á árinu.

Endurskoðuð áætlun sveitarfélaga um heildargreiðslur sérstakra húsaleigubóta á árinu 2013 nemur rúmlega 1.197 m.kr. Um 60% kostnaðarhlutdeild ríkissjóðs er að ræða í greiðslum bótanna.

 

 

 

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta