Hægt að fylgjast með morgunverðarfundi um innanlandsflugið á vef innanríkisráðuneytis
Minnt er á skráningu á morgunverðarfund innanríkisráðuneytis um niðurstöður félagshagfræðilegrar greiningar á innanlandsfluginu sem haldinn verður fimmtudaginn 20. febrúar. Fundurinn fer fram í Iðnó í Reykjavík og verður unnt að fylgjast með fundinum á netinu á vef ráðuneytisins. Skráning fer fram á netfanginu [email protected].
Fundurinn stendur frá kl. 8.30 til 10 og verður boðið uppá hressingu. Dagskrá hefst með ávarpi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra og mun hún fjalla um mikilvægi áætlunarflugsins innanlands fyrir öryggi og búsetugæði. Þá segir Vilhjálmur Hilmarsson hjá Mannviti frá helstu niðurstöðum á félagshagfræðilegri greiningu á framtíð innanlandsflugsins. Vilhjálmur vann greininguna ásamt Ástu Þorleifsdóttur, sérfræðingi í innanríkisráðuneytinu, en hluti niðurstaðna var kynntur á rannsóknarþingi Vegagerðarinnar seint á síðasta ári.
Í lok fundar verða pallborðsumræður með þátttöku fulltrúa með ýmis sjónarhorn á þýðingu innanlandsflugsins. Þátttakendur í pallborði eru:
- Kristín Soffía Jónsdóttir, varaborgarfulltrúi í Reykjavík
- Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri
- Janne Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls
- Ingi Þór Guðmundsson, markaðsstjóri Flugfélags Íslands
Fundarstjóri er Birna Lárusdóttir, formaður samgönguráðs. Fundarmenn eru beðnir á að senda skráningu á netfangið [email protected] eigi síðar en síðdegis miðvikudaginn 19. febrúar.