Hoppa yfir valmynd
20.02.2014 Innviðaráðuneytið

Vinnuhópur mun greina kostnað við innanlandsflug

Vel á annað hundrað manns fylgdist með fundi innanríkisráðuneytisins sem haldinn var í morgun þar sem fjallað var um niðurstöður skýrslu um félagshagfræðilega greiningu á framtíð innanlandsflugs. Um helmingur fundarmanna sótti fundinn í Iðnó í Reykjavík og annað eins fylgdist með honum á netinu og má sjá upptöku af fundinum hér að neðan. Auk ávarps innanríkisráðherra og kynningar á skýrslunni voru pallborðsumræður þar sem fjallað var um ýmsar hliðar innanlandsflugs. Fundinum stýrði Birna Lárusdóttir, formaður samgönguráðs.

Fundur um greiningu á framtíð innanlandsflugs var haldinn í morgun.
Fundur um greiningu á framtíð innanlandsflugs var haldinn í morgun.

Hanna Birna Kristjánsdóttir flutti ávarp í upphafi fundarins.Í ávarpi sínu í upphafi fundar sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra að hafin væri vinna í ráðuneytinu við að greina kostnað við innanlandsflug í því skyni að það verði raunhæfur kostur fyrir almenning við val á ferðamáta. Skipa á vinnuhóp um verkefnið og munu fulltrúar sveitarfélaga, ferðaþjónustu, Isavia auk fulltrúa ráðuneytisins og fleiri eiga þar sæti. Mun hópurinn starfa undir forystu Valgerðar Gunnarsdóttur alþingismanns.

Vilhjálmur Hilmarsson fór yfir helstu niðurstöður greiningarinnar.Á fundinum greindi Vilhjálmur Hilmarsson, hagfræðingur hjá Mannviti, frá helstu niðurstöðum skýrslunnar og svaraði spurningum fundarmanna ásamt Ástu Þorleifsdóttur, sérfræðingi í innanríkisráðuneytinu, sem einnig vann skýrsluna. Í pallborði ræddu um efnið þau Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, Janne Sigurðsson, forstjóri Alcoa Fjarðaáls, og Ingi Þór Guðmundsson, markaðsstjóri Flugfélags Íslands.

Samgönguráð fer yfir skýrsluna

Innanríkisráðherra minnti í upphafi á hversu ríkan þátt flugið hefði spilað í samfélaginu í 80 ár og sagði að fæstir gerðu sér grein fyrir gríðarlegri uppbyggingu, umsvifum, tengingum og þróun sem flugið færði íslensku samfélagi dag hvern. Um skýrsluna sagði ráðherra að hún væri hluti af 12 ára samgönguáætlun til ársins 2022 og lét í ljós von um að hún myndi gagnast við stefnumörkun og ákvarðanir er varðar samgöngur í landinu. Hún sagði samgönguráð fara yfir skýrsluna og skila tillögum til sín.

Ráðherra sagði það ekki koma á óvart að meðal niðurstaðna skýrslunnar væri að mesta arðsemin væri á flugleiðunum milli Reykjavíkur og Egilsstaða og Akureyrar sem væru mest notaðar en það gæfi auga leið að ekki væri fjárhagslega hagkvæmt að halda úti áætlunarflugi til sumra staða. Þar réðu aðrir og mikilvægari þættir því að leiðum er haldið uppi með styrkjum frá hinu opinbera.

Vilhjálmur Hilmarsson fór yfir helstu niðurstöður greiningarinnar og eru þær raktar hér á eftir.

Upptökur frá fundinum:

Helstu niðurstöður

Samkvæmt niðurstöðum kostnaðar-/ábatagreiningar er núvirtur ábati af innanlandsflugvallakerfinu á landsbyggðinni í heild um 70,8 milljarðar króna á verðlagi ársins 2013 miðað við arðsemistímann 2013-2053 (uppsafnaður ábati til 40 ára) en þar hefur verið leiðrétt fyrir óvissu í bakgrunnsbreytum, m.a. farþegaspá. Munar þar mestu um ábata notenda af notkun flugsins og ábata vegna aukins öryggis í samgöngum. Þjóðhagslegur ávinningur samfélagsins af útgjaldakrónu hins opinbera til flugvallanna og flugsins í heild er 1,48 kr, þ.e. þjóðhagsleg arðsemi fjárfestingarinnar í flugvallakerfinu og fluginu á landsbyggðinni umfram útgjöld er 48%. Þar af er 251% samfélagsleg arðsemi af Egilsstaðaflugvelli og flugleiðinni „Egilsstaðir – Reykjavík“, 45% samfélagsleg arðsemi af Ísafjarðarflugvelli og flugleiðinni „Ísafjörður – Reykjavík“ og 41% samfélagsleg arðsemi af Akureyrarflugvelli og flugleiðinni „Akureyri – Reykjavík“. Af öðrum flugvöllum er neikvæð samfélagsleg arðsemi.  

Í pallborði sátu þau Eiríkur Björn Björgvinsson, Ingi Þór Guðmundsson og Janne Sigurðsson.

Í pallborði sátu þau Eiríkur Björn Björgvinsson, bæjarstjóri á Akureyri, Ingi Þór Guðmundsson, markaðsstjóri Flugfélags Íslands, og Janne Sigurðsson, forstjóri Alcoa.

Niðurstöður félagsgreiningar byggja á áhrifum og samfélagslegum afleiðingum þess að hætta áætlunarflugi á hvern áfangastað. Þar er átt við afleiðingar þess fyrir búsetugæði byggðarlaga á áhrifasvæði flugvallar ef flugi er hætt. Búsetugæði felast í sex virðisþáttum/grundvallarþáttum: heilsu og öryggi, menntun, atvinnu, aðgengi að þjónustu, menningu og afþreyingu og fjölskyldutengslum. Í fyrstu er hverjum virðisþætti gefin virðiseinkunn eftir mikilvægi þáttarins fyrir búsetugæði. Heilsa og öryggi eru talin mikilvægust fyrir búsetugæði en þar á eftir koma menntun og menntunarmöguleikar, staðbundin atvinna og atvinnumöguleikar, aðgengi að þjónustu, möguleikinn til að rækta fjölskyldutengsl og loks aðgengi að menningu og afþreyingu fyrir íbúa áhrifasvæðisins. Því næst eru áhrif þess að hætta flugi á búsetugæði á áhrifasvæði flugvallar metin. Í áhrifamatinu er stuðst við upplýsingar úr könnunum Félagsvísindastofnunar Háskóla Íslands sem gerðar voru og upplýsingar um staðhætti áhrifasvæðis. Samfélagslegar afleiðingar þess að hætta flugi eru svo metnar út frá áhrifum þess að hætta flugi á búsetugæði staðarins m.t.t hvers virðisþáttar og virðis þáttarins (mikilvægi hans í búsetugæðum) sem til skoðunar er. Þannig geta áhrif þess að hætta flugi á tiltekinn virðisþátt verið mikil en samfélagslegar afleiðingar litlar sé þátturinn ekki mikilvægur fyrir búsetugæði. Þá eru afleiðingar ekki eins fyrir alla hópa og skiptir þar mestu kyn, aldur og staða eins og ítarlega er greint frá í skýrslunni.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta