Hoppa yfir valmynd
06.05.2014 Innviðaráðuneytið

Breytt skipan húsnæðismála með öflugum leigumarkaði

Eygló Harðardóttir og Soffía Eydís Björgvinsdóttir, formaður verkefnisstjórnarinnar
Eygló Harðardóttir og Soffía Eydís Björgvinsdóttir, formaður verkefnisstjórnarinnar

Verkefnisstjórn um framtíðarskipan húsnæðismála hefur skilað félags- og húsnæðismálaráðherra tillögum sínum. Fjármögnun húsnæðislána verður breytt, húsnæðissparnaður festur í sessi og leigumarkaðurinn efldur með margvíslegum aðgerðum. Soffía Eydís Björgvinsdóttir, formaður verkefnisstjórnarinnar kynnti tillögurnar í Safnahúsinu í dag á blaðamannafundi sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra boðaði til.

Félags- og húsnæðismálaráðherra skipaði verkefnisstjórnina 9. september 2013, í samræmi við þingsályktun um aðgerðir vegna skuldavanda heimila á Íslandi. Verkefnisstjórnin kynnti tillögur sínar í dag og er það mat hennar að með þeim verði unnt að tryggja til framtíðar stöðugleika og gegnsæi á húsnæðismarkaði og tryggja lánþegum örugga langtímafjármögnun húsnæðislána með stórauknum heimildum þeirra til endurfjármögnunar.

Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra„Verkefnisstjórnin hefur unnið gott verk. Hér eru komnar skýrar og vel útfærðar tillögur sem munu stuðla að sjálfbærum húsnæðismarkaði með raunhæfum valkostum og skynsamlegum húsnæðisstuðningi við fólk eftir efnum þess og aðstæðum. Markmiðið er að tryggja öllum öruggt húsnæði og þessar tillögur eru góður grunnur að því“ segir Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra.

Tillögur verkefnisstjórnarinnar snúa annars vegar að fjármögnun almennra húsnæðislána og hins vegar að uppbyggingu á virkum leigumarkaði.

Framtíðarskipan hýsnæðismála - lógó

Fjármögnun almennra húsnæðislána – helstu tillögur:

  • Tekið verði upp nýtt húsnæðislánakerfi þar sem sérhæfð húsnæðislánafélög annast lánveitingar um allt land og umgjörð allra húsnæðisveðlána miðast við jafnvægi milli útlána og fjármögnunar lánanna.
  • Íbúðalánasjóði verði breytt og núverandi verkefnum hans skipt upp, annars vegar í nýtt, opinbert húsnæðislánafélag sem annast almennar lánveitingar til húsnæðismála án ríkisábyrgðar. Hins vegar verði mörgum þeim verkefnum sem Íbúðalánasjóður sinnir í dag ásamt viðbótarverkefnum sem lögð eru til af verkefnisstjórn færð til sérstakrar stofnunar, m.a. verkefni sem snúa að opinberri stefnumótun í húsnæðismálum.
  • Viðskiptavakt á eftirmarkaði íbúðabréfa verði áfram til staðar svo lengi sem þörf er á.
  • Félags- og húsnæðismálaráðherra setji fram og kynni húsnæðisstefnu ríkisins á heildstæðan hátt með aðkomu Alþingis.
  • Húsnæðissparnaður verði festur í sessi og heimild til að nýta séreignasparnað vegna húsnæðisöflunar verði varanleg.
  • Heimild til fullrar endurgreiðslu á virðisaukaskatti vegna húsnæðisframkvæmda verði varanleg.
  • Komið verði til móts við tillögur sérfræðingahóps um afnám verðtryggingar af nýjum neytendalánum.

Húsnæðisbætur: Lagt er til að vaxtabætur og húsaleigubætur verði sameinaðar í eitt húsnæðisbótaskerfi. Stuðningurinn miðist við efnahag en ekki búsetuform og jafnræðis því gætt, óháð því hvort fólk á húsnæðið eða leigir það. Unnið verði á grundvelli fram kominna tillagna um hækkun húsaleigubóta.

Virkur leigumarkaður – helstu tillögur:

  • Leigufélög sem rekin eru án hagnaðarsjónarmiða fái opinberan stuðning í formi stofnframlaga í stað niðurgreiðslu á vöxtum.
  • Svigrúm leigufélaga til afskrifta á eignum samkvæmt lögum um tekjuskatt verði aukið.
  • Fjármagnsskattur á einstaklinga sem ekki eru í atvinnurekstri en leigja út íbúðarhúsnæði til langs tíma verði lækkaður úr 20% í 10%. Jafnframt verði sett frítekjumark á leigutekjur, tímabundið í þrjú ár, allt að 1200.000 kr. á ári, þegar ekki er um atvinnurekstur að ræða.
  • Löggjöf verði breytt þannig að eignarréttarstaða fólks sem kaupir sér rétt til búsetu í íbúðarhúsnæði, meðal annars fyrir aldraða, verði tryggð með veði í samræmi við útlagðan kostnað.
  • Húsaleigulög verði endurskoðuð til að treysta umgjörð leigumarkaðarins og efla úrræði leigusala og leigutaka.
  • Löggjöf um húsnæðissamvinnufélög verði endurskoðuð til að efla starfsemi þeirra og styðja við nýja framtíðarskipan húsnæðismála.

Fjárframlög úr ríkissjóði vegna erfiðrar stöðu Íbúðalánasjóðs verði takmörkuð

Verkefnisstjórnin leggur áherslu á að frekari fjárútlát ríkissjóðs vegna erfiðrar stöðu Íbúðalánasjóðs verði takmörkuð, enda er gert ráð fyrir að sjóðurinn hætti útlánum á þeim forsendum sem verið hefur. Samhliða framangreindum breytingum er lagt til að núverandi lánasafn Íbúðalánasjóðs verði látið renna út og að lántakendur sjóðsins fái annað hvort þjónustu hjá húsnæðisfélagi í eigu ríkissjóðs eða hjá öðrum aðila í kjölfar útboðs á umsýslu lánanna.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta