Hoppa yfir valmynd
18.09.2014 Innviðaráðuneytið

Nauðsynlegt að bæta og efla samskipti ríkis og sveitarfélaga

Samskipti ríkis og sveitarfélaga voru eitt aðal umræðuefna á aðalfundi Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi sem fór fram í dag í Búðardal. Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra var meðal frummælenda um efnið ásamt Gunnari Sigurðssyni, formanni SSV, Karli Björnssyni, framkvæmdastjóra Sambands íslenskra sveitarfélaga, og Haraldi Benediktssyni alþingismanni.

Aðalfundur Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi fór fram í dag í Búðardal.
Aðalfundur Samtaka sveitarfélaga á Vesturlandi fór fram í dag í Búðardal.

Í ræðu sinni sagði innanríkisráðherra meðal annars að mikilvægt væri að samskipti ríkis og sveitarfélaga væru góð og fagleg og að traust ríkti milli aðila. Hún tók undir að samskiptin væru á köflum ekki nægilega góð og sagði að ríkisvaldið yrði að temja sér að líta ætíð á sveitarfélögin sem samstarfsaðila.

Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra ávarpaði aðalfund SSV í dag.Ráðherra benti á tvö dæmi um nýleg ákvæði laga sem stuðluðu að bættum samskiptum ríkis og sveitarfélaga. Annað væru ákvæði sveitarstjórnarlaga um formlegt og reglubundið samstarf um mikilvæg stjórnarmálefni sem tengist stöðu og verkefnum sveitarfélaga en sú nefnd er kölluð Jónsmessunefnd. Meðal verkefna hennar væri að huga að lagafrumvörpum sem varði sveitarfélögin, fjármál og verkaskiptingu ríkis og sveitarfélaga. Í þeim lögum væri einnig að finna ákvæði sem skyldi ráðuneyti til að kostnaðarmeta lagafrumvörp og reglugerðadrög sem hafa muni fjárhagsleg áhrif á sveitarfélögin. Hins vegar væru ákvæði í lögum þar sem kveðið er á um breytingar á umdæmum lögreglustjóra og sýslumanna. Þar væru ákvæði um að umdæmamörk embættanna skuli ákveðin með reglugerð ráðherra að höfðu samráði við viðkomandi embætti, Samband íslenskra sveitarfélaga og landshlutasamtök sveitarfélaga. Þá benti ráðherra á þá þróun síðustu ára að ráðuneyti setji öll frumvörp og reglugerðardrög í umsögn og sagði hún svo vera um meginþorra þessa í tilviki innanríkisráðuneytisins. Í lokin lögðu fundarmenn ýmsar spurningar fyrir ráðherra.

Gunnar Sigurðsson og Karl Björnsson sögðu mikilvægt að hafa góð og öflug samskipti og taldi Gunnar stundum hafa skort á þau. Karl lagði til að stofnuð yrði sérstök skrifstofa sveitarstjórnarmála í ráðuneytinu en þeim málum ekki  sinnt á skrifstofu sem einnig sinnti margs konar öðrum verkefnum. Haraldur Benediktsson minntist í sínu erindi á ýmis atriði sem fulltrúar sveitarfélaga ræddu á fundum með fjárlaganefnd, meðal annars um samgöngumál og fjarskipti.

Að loknum inngangserindum voru pallborðsumræður frummælenda og tók Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri skrifstofu mannréttinda og sveitarfélaga í innanríkisráðuneytinu, þá sæti ráðherra og Regína Ásvaldsdóttir, bæjarstjóri á Akranesi, bættist einnig í hópinn.

 

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta