Hoppa yfir valmynd
16.04.2015 Innviðaráðuneytið

Framlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga á árinu 2015

Innanríkisráðherra hefur samþykkt eftirfarandi tillögur ráðgjafarnefndar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga frá 8. apríl sl. um endurskoðaðar áætlanir um úthlutanir framlaga á árinu 2015:

Útgjaldajöfnunarframlög

Ráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar um endurskoðaða áætlun um úthlutun útgjaldajöfnunarframlaga fyrir árið 2015, skv. 13. gr. reglugerðar um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga nr. 960/2010. Við endurskoðunina var tekið mið af leiðréttum hámarkstekjum á íbúa í hverju sveitarfélagi og íbúafjölda í sveitarfélögum 1. janúar 2015.

Að teknu tilliti til áætlunar um ráðstöfunarfjármagn sjóðsins nemur endurskoðuð úthlutun útgjaldajöfnunarframlaga í ár 6.050 m.kr. Til úthlutunar nú hafa komið framlög samtals að fjárhæð 5.875 m.kr.  Þar af nema framlög vegna skólaaksturs úr dreifbýli 575 m.kr. Í desember koma til úthlutunar og greiðslu viðbótarframlög að fjárhæð allt að 175 m.kr. vegna íþyngjandi kostnaðar sveitarfélaga af skólaakstri úr dreifbýli á árinu 2015 umfram tekjur.

Úthlutuð framlög eru greidd mánaðarlega með jöfnum greiðslum. Af hverri mánaðarlegri greiðslu er haldið eftir 10%. Við greiðslu framlaganna í apríl fer jafnframt fram leiðrétting greiðslna fyrir mánuðina janúar. febrúar og mars. Uppgjör framlaganna fer fram í desember.

Almenn jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla

Ráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar um endurskoðaða áætlun um úthlutun almennra jöfnunarframlaga til reksturs grunnskóla fyrir árið 2015, skv. 3. gr. reglugerðar um jöfnunarframlög til reksturs grunnskóla nr. 351/2002. Við endurskoðunina var tekið mið af endanlegum útsvarsstofni sveitarfélaga vegna tekna ársins 2013 og áætlun um útsvarstekjur sveitarfélaga á árinu 2015. Jafnframt var áætlunin uppfærð hvað varðar fjölda íbúa á grunnskólaaldri í hverju sveitarfélagi 1. janúar 2015.

Að tillögu ráðgjafarnefndar nemur áætluð heildarúthlutun  almennra jöfnunarframlaga til reksturs grunnskóla í ár  um 6.263  m.kr. Þar af eru leiðréttingar á framlögum ársins 2013 að fjárhæð um 66 m.kr.

Framlögin koma til greiðslu mánaðarlega og taka mið af innkomnum tekjum sjóðsins af 0,77% hlutdeild hans í staðgreiðsluskilum viðkomandi mánaðar. Við greiðslu framlaganna í apríl fer jafnframt fram leiðrétting greiðslna fyrir mánuðina janúar, febrúar og mars.

Framlög vegna greiðslu sveitarfélaga á almennum húsaleigubótum

Ráðherra hefur samþykkt tillögu ráðgjafarnefndar um hækkun á áætluðu greiðsluhlutfalli Jöfnunarsjóðs vegna greiðslu sveitarfélaga á almennum húsaleigubótum á árinu 2015 úr 63,2% í 66%.

Sveitarfélögin áætla að heildargreiðslur þeirra á almennum húsaleigubótum nemi um 4.982 m.kr. á árinu 2015. Um er að ræða 7,9% hækkun á greiðslum bótanna sé tekið mið af raungreiðslum sveitarfélaga á árinu 2014.

Við hækkun á áætluðu greiðsluhlutfalli sjóðsins úr 63,2% í 66% hækka áætluð framlög Jöfnunarsjóðs til sveitarfélaga vegna almennra húsaleigubóta úr  3.149 m.kr. í 3.288 m.kr. eða um 4,4%.

Fram fara tvær mánaðarlegar innborganir inn á framlag hvers ársfjórðungs vegna almennra húsaleigubóta. Uppgjör fyrir viðkomandi ársfjórðung fer fram eigi síðar en 20. apríl, 20. júlí, 20. október og 20. janúar.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta