Hoppa yfir valmynd
13.08.2015 Innviðaráðuneytið

Norrænir sveitarstjórnarráðherrar ræddu einföldun regluverks

Ólöf Nordal innanríkisráðherra situr í dag fund norrænna sveitarstjórnarráðherra sem fram fer í Uppsölum í Svíþjóð. Aðalumræðuefni fundarins er hvernig megi einfalda laga- og regluverk þannig að það sé ekki of íþyngjandi fyrir sjálfsforræði sveitarfélaga og bætt geti stjórnsýslu og þjónustu við íbúa.

Ólöf Nordal tók þátt í fundi norrænna sveitarstjórnarráðherra. Hér er hún með sænskum starfsbróður sínum, Ardalan Shekarabi.
Ólöf Nordal tók þátt í fundi norrænna sveitarstjórnarráðherra. Hér er hún með sænskum starfsbróður sínum, Ardalan Shekarabi.

Í máli sínu á fundinum dró Ólöf Nordal upp þá mynd af íslenska sveitarstjórnarstiginu að samstaða væri um eflingu þess og hefðu ýmsir áfangar náðst á því sviði undanfarin ár. Hlutdeild sveitarstjórnarstigsins í opinberum rekstri hefði aukist smátt og smátt og væri nú um þriðjungur opinberra útgjalda sem væri þó enn nokkuð lægra en almennt gerðist á hinum Norðurlöndunum. Ráðherra sagði að vilji ríkisstjórnar og Sambands íslenskra sveitarfélaga væri til þess að halda áfram þessari eflingu og hefði starfshópi verið falið að benda á leiðir í því sambandi. Hún nefndi að þótt hún væri andvíg þvingaðri sameiningu væri ljóst að stærri og öflugri sveitarfélög gætu aukið tækifæri sveitarfélaga til nýrra verkefna frá ríkinu. Kvaðst hún vona að unnt yrði að gera grein fyrir tillögum um aðgerðir starfshópsins á fundi norrænu ráðherranna að ári.

Innanríkisráðherra kvaðst ánægð með umfjöllun um mögulega einföldun stjórnsýslunnar og hvernig það gæti gert atvinnulífi og sveitarfélögum betur kleift að annast verkefni sín án þess að draga úr gæðum. Hún sagði ríkisstjórnina vinna að endurskoðun regluverks atvinnulífsins með aukna skilvirkni að leiðarljósi og sagði hún að næsti áfangi í slíkri umbótavinnu gæti náð til sveitarfélaganna í því skyni að sníða af óþarfa umsýslu og miðstýringu.

Á dagskrá fundar ráðherranna hafa einnig verið umræður um ýmsar áskoranir sem sveitarstjórnarstigið stendur frammi fyrir á Norðurlöndunum, svo sem vegna búferlaflutninga, breyttrar aldurssamsetningar og aukinnar þarfar fyrir sérhæfða þjónustu.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta