Hoppa yfir valmynd
30.06.2016 Innviðaráðuneytið

Sveitarfélög minnt á tilraunaverkefni um rafrænar íbúakosningar

Innanríkisráðuneytið hefur skrifað sveitarfélögum landsins til að minna á að enn stendur yfir tilraunaverkefni varðandi rafrænar íbúakosningar um einstök málefni sveitarfélaga en heimild til þeirra er að finna í 10. kafla sveitarstjórnarlaga. Slík atkvæðagreiðsla er ráðgefandi fyrir sveitarstjórn nema hún ákveði að niðurstaðan bindi hendur hennar til loka kjörtímabilsins.

Samkvæmt bráðabirgðaákvæði við sveitarstjórnarlögin getur sveitarstjórn óskað eftir því við ráðherra að almenn atkvæðagreiðsla á grundvelli 10. kafla laganna fari eingöngu fram með rafrænum hætti. Er tilgangur ákvæðisins að styðja við framkvæmd rafræns lýðræðis í sveitarfélögum en einnig að prófa og innleiða rafræna kjörskrá og nýja tækni við íbúakosningar. Bráðabirgðaákvæðið gildir til 31. maí 2018.

Á síðasta ári fóru fram tvennar íbúakosningar, annars vegar í Sveitarfélaginu Ölfusi og hins vegar Reykjanesbæ. Við þær atkvæðagreiðslur var notað rafrænt kosningakerfi sem spænska fyrirtækið Scytl hefur þróað og samdi Þjóðskrá Íslands við það um afnot af kerfinu við slíkar tilraunir hérlendis.

Innanríkisráðuneytið hefur vakið athygli sveitarfélaga á þessu tilraunaverkefni sem enn stendur og eru sveitarfélög sem hyggjast halda íbúakosningar hvött til að kynna sér verkefnið og gefa sig fram við Þjóðskrá Íslands. Sveitarfélög sem valin eru til þátttöku í tilraunaverkefninu munu ekki bera kostnað sem hlýst af rafrænni framkvæmd atkvæðagreiðslu.

Áslaug María Friðriksdóttir borgarfulltrúi er formaður ráðgjafarnefndar um rafrænar íbúakosningar og með henni í nefndinni sitja Guðjón E. Friðriksson, bæjarritari í Garðabæ, og Magnús Karel Hannesson, sviðsstjóri hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Nánari upplýsingar veita Bragi Leifur Hauksson, verkefnisstjóri hjá Þjóðskrá Íslands, [email protected], og Áslaug María Friðriksdóttir, formaður ráðgjafarnefndar um rafrænar íbúakosningar, [email protected].

 

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta