Hoppa yfir valmynd
17.03.2017 Heilbrigðisráðuneytið

Niðurstöður úttektar á öldrunarþjónustu - tillögur til heilbrigðisráðherra

Tillögur starfshóps - forsíða - mynd

Velferðarráðuneytið birtir hér með niðurstöður úttektar á öldrunarþjónustu sem unnin var af hálfu verkefnisstjórnar sem þáverandi heilbrigðisráðherra skipaði í september 2015. Verkefnisstjórninni var m.a. falið að greina þann hluta öldrunarþjónustu sem fellur undir heilbrigðismál.

Eins og fram kemur í skipunarbréfi verkefnisstjórnarinnar var henni falið: „að gera úttekt á öldrunarþjónustu með það að markmiði að greina stöðu heilbrigðishluta þjónustunnar við aldraða, móta tillögur að stefnu og einnig tillögur að aðgerðaáætlun um nauðsynlegar breytingar.“ Var verkefnisstjórninni ætlað að horfa til þróunar síðustu ára, spá fyrir um þróun næstu ára og setja fram tillögur að breytingum á þjónustunni eftir því sem við ætti.

Til heilbrigðishluta öldrunarþjónustu sem nefndin fjallaði um teljast hjúkrunarrými, dvalarrými, heimahjúkrun, dagdvöl og endurhæfing.

Verkefnisstjórnin kynnti þáverandi heilbrigðisráðherra niðurstöður sínar í mars 2016. Ekki var um eiginlega skýrslu að ræða, heldur samantekt um vinnu hópsins á glæruformi sem ráðherra var afhent, undir yfirskriftinni „Stefnumótun í heilbrigðisþjónustu fyrir aldraða.“

Vert er að taka fram að niðurstöður nefndarinnar sem hér eru birtar sem fylgiskjal fela ekki í sér stefnu velferðarráðuneytisins eða heilbrigðisráðherra, heldur eru þetta tillögur starfshópsins sem ekki hefur verið tekin endanleg afstaða til af hálfu ráðherra.

Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra segir mikinn feng í þeirri vinnu sem birtist í niðurstöðum starfshópsins og því mikilvægt að koma upplýsingunum á framfæri. Hópurinn hafi skipaður sérfræðingum sem lögðu víðtæka þekkingu sína af mörkum og höfðu jafnframt víðtækt samráð við fjölda fagfólks, stofnana og hagsmunaaðila með þekkingu á málaflokkinum.

Meðal þess sem verkefnisstjórnin leggur til sem stefnumarkandi áherslur er að stóraukin áhersla verði lögð á heilsugæslu, forvarnir og endurhæfingu til að efla heilbrigði og draga úr þörf fyrir ótímabæra stofnanavist með tilheyrandi kostnaði. Óttarr segir auðvelt að taka undir þessar áherslur og að þær eigi góðan samhljóm með samstarfsyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar: „Þar er lýst vilja til að gera forvörnum og lýðheilsu hátt undir höfði og jafnframt að setja aukinn þunga í uppbyggingu öldrunarþjónustu, með áherslu á heimahjúkrun og hjúkrunarheimili, fjölgun rýma í dagdvöl og styttri bið eftir þjónustu.

Ég hvet fólk til að kynna sér meðfylgjandi niðurstöður starfshópsins, því þetta er mikilvægt innlegg í umræðu um árangursríkar leiðir til að efla og bæta þjónustu við aldraða og þetta mun að sjálfsögðu nýtast við víðtæka stefnumótun til framtíðar á sviði heilbrigðismála. Öll umræða um þau mál er nauðsynleg og góð,“ segir Óttarr Proppé heilbrigðisráðherra.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta