Drög að lagabreytingu um tekjustofna sveitarfélaga til umsagnar
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið kynnir til umsagnar drög að lagafrumvarpi um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga, nr. 4/1995, er varða fasteignasjóð Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.
Unnt er að senda ráðuneytinu umsagnir um drögin til og með 7. ágúst næstkomandi og skulu þær berast á netfangið [email protected].
Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga var komið á fót í tengslum við yfirfærslu á málefnum fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga 1. janúar 2011. Sjóðurinn tók þá yfir fasteignir í eigu ríkisins sem nýttar höfðu verið í þjónustu við fatlað fólk og hefur hlutverk hans verið að tryggja sem jafnasta aðstöðu sveitarfélaga með því að leigja eða selja þeim fasteignirnar til slíkra afnota.
Frumvarpið miðar að því að fela fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga breytt hlutverk við jöfnun á aðstöðu sveitarfélaga sem felst í því að styðja með fjárframlögum uppbyggingu fasteigna sem nýta á til þjónustu við fatlað fólk með miklar og/eða sértækar stuðningsþarfir. Er það í samræmi við sameiginlega viljayfirlýsingu samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, félags- og jafnréttismálaráðherra og Sambands íslenskra sveitarfélaga. Eru aðilar sammála um að breytingar þessar muni hafa jákvæð áhrif á uppbyggingu húsnæðisúrræða til þjónustu við fatlað fólk.