Forseti sænska þingsins átti fund með samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra
Forseti sænska þjóðþingsins, Urban Ahlin, heimsótti nýverið Sigurð Inga Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ásamt fylgdarliði en hann var hérlendis í opinberri heimsókn ásamt fjórum þingmönnum. Ræddi hann við ráðherra og nánustu samstarfsmenn í ráðuneytinu.
Sigurður Ingi bauð gestina velkomna í ráðuneytið og greindi í upphafi frá helstu verkefnum ráðuneytisins í sveitarstjórnar- og byggðamálum. Sagði hann meðal annars að byggðamálin sem hefðu nýverið verið flutt í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið, væru sérstakt áhugamál sitt og meðal annars ástæða þess að hann hafði áhuga á að taka að sér embætti samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra. Samræmd stefna í byggðamálum væri mikilvæg fyrir fámennar byggðir og uppbyggingu þeirra og sagði byggðaáætlun nú í smíðum. Þar inni væri að finna ýmsar byggðaaðgerðir og sérstaklega verði skoðaðir hvatar til að styrkja hinar dreifðu byggðir landsins þar sem notast verður við þau kerfi sem þegar eru til staðar, svo sem námslánakerfið. Hann sagði ríkisstjórnina meðvitaða um byggðamál og nú væri í undirbúningi gerð þjónustukorts sveitarfélaga og hins opinbera enda mikilvægt að allir landsmenn gætu gengið að sams konar þjónustu óháð búsetu.
Einnig ræddi Sigurður Ingi um fjölda sveitarfélaga á Íslandi og eflingu þeirra og nefndi sem dæmi að íbúafjöldi sveitarfélaga væri mjög mismikill, allt frá um 50 í þeim fámennustu uppí 130 þúsund. Erfitt væri að flytja fleiri verkefni frá ríki til sveitarfélaga meðan mörg þeirra væru fámenn.
Í framhaldinu voru umræður og skiptust menn á upplýsingum og fróðleik um helstu verkefni og áskoranir sem sneru að yfirvöldum á þessum málefnasviðum. Sænska sendinefndin átti í Íslandsheimsókninni viðræður við forseta Alþingis, utanríkismálanefnd Alþingis, forsætisráðherra og forseta Íslands. Einnig heimsótti hópurinn Seðlabankann og sveitarstjórnir og fyrirtæki á Vesturlandi.