Ráðherra ræddi við ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra ræddi nýverið við ráðgjafarnefnd Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga sem heldur fundi sína í ráðuneytinu að jafnaði mánaðarlega. Á fundinum ræddu nefndarmenn og ráðherra um helstu verkefni sjóðsins og áherslur.
Fram kom í máli ráðherra að starfsemi Jöfnunarsjóðsins væri sveitarfélögunum afar mikilvæg enda væri hlutverk hans að jafna aðstöðumun sveitarfélaga í því skyni að geta veitt íbúum nauðsynlega og lögbundna þjónustu. Þá var rætt um það mikilvæga hlutverk sem sjóðnum hefur verið falið í gegnum tíðina varðandi aðkomu hans að því greiða fyrir sameiningu sveitarfélaga. Mikilvægt væri að vinna áfram að undirbúningi vegna sameiningar sveitarfélaga og þar væri stuðningur sjóðsins mikilvægur.
Í máli Sigurðar Inga kom fram að hann hafi kynnt sér tillögur nefndar um endurskoðun regluverks sjóðsins og sagði mikilvægt að vinna áfram með þær tillögur á næstu mánuðum.