Hoppa yfir valmynd
11.04.2018 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Staða og framtíðarsýn í fjarskiptum

Staða og framtíðarsýn í fjarskiptum

Morgunfundur í tilefni af heimsókn Houlin Zhao, aðalritara ITU

 11. apríl 2018, Grand Hótel Reykjavík, Háteigur 4. hæð

 

Dear Secretary General, Mr. Houlin Zhao

I am honoured to welcome you to Iceland and to accept this award for the best performing country, (ranked No 1) according to the Information and Communication Technology Development Index for 2017.

I believe this is your first visit to Iceland, and to my best knowledge, this is the first time the Secretary General of the International Telecommunications Union has honoured our country with a visit.

The ITU plays a very important International role. Iceland has been a member since 1906 which is an indication of the importance Icelanders attribute to telecommunication, even 112 years ago!

This award and the fact that ITU has ranked Iceland no 1 (2017) in the ICT Development Index is a source of pride for the Icelandic Government and the Icelandic people.  Not only as an international indicator that we have been doing the right things, but also that it underlines the ambitious future visions and goals of ICT that we have.

We want to continue being in the forefront of nations in ICT and, I think we can.

I would like to thank you for visiting us and bestowing this honour upon us.

I do hope you will enjoy your stay in Iceland.

I will now turn to Icelandic, with your permission.

 

Ágætu fundarmenn,

Það vekur athygli að Ísland hefur náð þeirri stöðu að vera fremst allra landa í innviðum upplýsingasamfélags og fjarskipta. Þar er vísað til góðrar stöðu í fjarskiptainnviðum, notkunar almennings og fyrirtækja á upplýsinga- og fjarskiptatækni og hækkandi menntunarstigs þjóðarinnar. Alls eru það 11 aðskildir þættir sem metnir eru og skila okkur í fyrsta sæti á heimsvísu.

Við skulum staldra við og meðtaka þetta. Hvað höfum við verið að gera rétt og hvernig getum við nýtt þessa stöðu til framdráttar fyrir íslenskt samfélag. Eins og fram hefur komið í opinberri umræðu eru miklar samfélagsbreytingar fyrirsjáanlegar á næstu áratugum. Breytingar sem eru tæknidrifnar og er rætt um sem fjórðu iðnbyltinguna. Undirstaða alls þessa er öflugt fjarskiptakerfi, góð tækniþekking og almenn þekking og menntun þjóðarinnar

Ekki verður fram hjá því litið að nýjar ógnir fylgja tækniframförum og þurfum við eins og aðrar þjóðir að móta skipulag í kringum netöryggismálin og gera ýmsar ráðstafanir til að auka öryggi á netinu. Stjórnsýslan er nú að undirbúa tvö frumvörp sem eiga að auka netöryggi og persónuvernd.  Samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytið ber ábyrgð á innleiðingu tilskipunar Evrópusambandsins um net- og upplýsingaöryggi, svokallaðrar NIS-tilskipunar sem fyrirhugað er að leggja fram á næsta þingi. 

Svo við snúum okkur aftur að þeim góða árangri sem við erum að fagna í dag þá má öllum vera það ljóst að hann hefur ekki komið af sjálfu sér. Margir aðskildir þættir hafa þar áhrif.

Þar má nefna:

  • Í fyrsta lagi: Virk samkeppni og miklar fjárfestingar fjarskiptafyrirtækja sem skila Íslendingum sterkum fjarskiptainnviðum og greiðum aðgangi almennings og fyrirtækja að háhraðatengingum við Internetið. Þessu tengt er að tölvueign og notkun almennings á tækninni hér á landi er mikil í alþjóðlegu samhengi.
  • Í öðru lagi má nefna: Verkefnið, Ísland ljóstengt, og stefnu stjórnvalda til margra ára um að leggja áherslu á sem mest jafnræði landsmanna hvað varðar aðgang að fjarskiptainnviðum. Þarna skiptir máli að sveitarfélögin hafa með beinum hætti tekið þátt í uppbyggingunni og einnig hefur framlag úr byggðasjóðum til uppbyggingar háhraðatenginga hjálpað verst settu sveitarfélögunum.

    Ég nefndi fjarskiptafyrirtækin fyrst enda eru fjárfestingar þeirra umtalsverðar en ég vil leggja áherslu á mikilvægi metnaðarfullrar  stefnu og stuðnings ríkisins í þeim árangri sem náðst hefur.

    Fjarskiptasjóður hefur til margra ára lagt til fé til að mæta kostnaði við uppbyggingu á þeim svæðum þar sem eru markaðs brestir. Þannig hefur náðst að koma háhraðatengingum til síðasta bæjarins í dalnum, ef svo má að orði komast.

  • Í þriðja lagi byggir árangur okkar í dag á góðri almennri menntun en menntunarstig þjóðarinnar hefur verið að aukast jafnt og þétt.

Lítum nú til framtíðar.  Það er sannarlega ekki gefið að Ísland verði í fremstu röð þjóða heims þegar kemur að því nýta sér og innleiða tækni og þjónustu fjórðu iðnbyltingarinnar. En við erum sannarlega með góða upphafsstöðu í þeim fjarskiptainnviðum sem við höfum í dag og áætlum að byggja upp á næstu árum.

Í ráðuneytinu eru nú hafin vinna við að undirbúa nýja stefnu í fjarskiptum, póstmálum og netöryggismálum þar sem mótuð verður metnaðarfull framtíðarsýn, markmið og árangursmælikvarðar. Í þessu verkefni verða hagsmunaaðilar að sjálfsögðu kallaðir að borðinu og óska ég hér með eftir víðtæku og góðu samstarfi um þetta mikilvæga verkefni.

Stefnumótun hjá ríkinu hefur, að margra mati, ekki verið gert nógu hátt undir höfði hingað til en óhætt er að fullyrða að það er að breytast.  Unnið er að því í ráðuneytunum að og bæta stefnumótunarferlin og tengja opinberar stefnur betur við fjárlagagerðina en gert hefur verið. Samfélagsþróunin er svo ör að stjórnvöld þurfa stöðugt að endurskoða vinnubrögð sín.

Sem ráðherra  fjarskiptamála, byggðamála og samgangna sé ég að það er hæpið að móta aðskildar stefnur í málaflokkum ráðuneytisins, eins og gert hefur verið hingað til, án samtals og samþættingar þeirra í millum.  Fjarskiptin, aðgengi að  háhraðatengingum og öflugu farneti, svo dæmi sé tekið, skipta sköpum í þróun og eflingu byggða. Og ein af stóru áskorunum sem við sannarlega stöndum frammi fyrir í samgöngumálum varðar fjarskipti í samgöngum, innleiðingu 5g og skjálfkeyrandi bíla.

Ég hef því ákveðið að kalla til sameiginlegs framtíðarfundar um öll málefnasvið ráðuneytisins síðar í þessum mánuði eða í byrjun maí. Þar verða kallaðir til fulltrúar hagsmunaaðila í málaflokkum ráðuneytisins því mér er ljóst að sú stefna sem mótuð verður þarf að byggja á sérþekkingu margra og það þarf að nást sátt um þau markmið sem sett verða.

Fjarskiptin varða svo að sjálfsögðu mörg, ef ekki flest önnur málefnasvið ríkisins.  Á næsta áratug er gert ráð fyrir að allir geirar samfélagsins þurfi að nýta sér upplýsinga- og fjarskiptatækni til fulls til þess að standast samkeppni.  Gengið er út frá því að þróaðar verði alls konar netþjónustur eða öpp t.d. í heilbrigðisþjónustu,  menntakerfinu og þjónustugeiranum sem reyna verulega á fjarskiptakerfið.

Að lokum vil ég segja að ríkisstjórnin hefur metnað til að Ísland haldi stöðu sinni sem eitt af forysturíkjum heims í fjarskiptainnviðum og nýtingu þeirra í þágu samfélagsins. Í því felst að fjórða iðnbyltingin, innleiðing 5g og nýjar þjónustur sem byggja á 5g þurfa að vera í forgrunni í stefnumótuninni sem nú er að hefjast.  Og ég legg áherslu á gott samstarf og samráð um mótun nýrra stefnu og innleiðingu hennar.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta