Samkomulag um menningarhús á Fljótsdalshéraði
Samkomulag mennta- og menningarmálaráðuneytis og Fljótsdalshéraðs um uppbyggingu menningarhúss í sveitarfélaginu var undirritað í gær. Í því felst uppbygging menningarhúss í Sláturhúsinu á Egilsstöðum og endurbætur á Safnahúsi bæjarins. Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Björn Ingimarsson bæjarstjóri Fljótsdalshéraðs undirrituðu samkomulagið að viðstöddu fjölmenni.
„Við fylgjum hér eftir þeirri mikilvægu vinnu sem unnin hefur verið í uppbyggingu menningarhúsa á landsbyggðinni. Menningarhúsin hafa sannað mikilvægi sitt víða um land og þau hafa ótvíræð jákvæð margfeldisáhrif, bæði á bæi og nærsamfélög. Ég hlakka til að fylgjast með menningarstarfinu hér og á Austurlandi öllu blómstra til framtíðar,“ sagði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra af þessu tilefni.
Gert er ráð fyrir að Sláturhúsið verði fjölnota menningarhús sem rúma skal m.a. sviðslistir, tónlist, sýningar og vinnustofur listafólks. Einnig verður reist ný burst við Safnahúsið, líkt og ráð var fyrir gert í upprunalegum teikningum, sem verður til að bæta aðstöðu fyrir safnkost þess, sýningar og til fyrirlestrahalds, auk aðstöðu fyrir fræði- og rannsóknarstörf. Markmið samkomulagsins er að framangreindar byggingar verði ekki einungis vettvangur menningar- og safnastarfsemi á Fljótsdalshéraði heldur að þær gegni einnig lykilhlutverki sem slíkar á Austurlandi.
Menningarhús eru á Ísafirði, Akureyri og í Vestmannaeyjum en ráðgert var í upphaflegum áformum um byggingu menningarhúsa að slík starfsemi yrði einnig á Norðvesturlandi og á Fljótsdalshéraði.
Við undirbúning og framkvæmd samkomulagsins verður unnið í samræmi við þarfagreiningu sem unnin var af fulltrúum mennta- og menningarmálaráðuneytis og sveitarfélagsins.