Hoppa yfir valmynd
19.07.2018 Innviðaráðuneytið

Byggðin við Bakkaflóa

Séð yfir Bakkafjörð - myndMynd frá vefsíðu Langanesbyggðar

Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur skipað nefnd um málefni byggðarinnar við Bakkaflóa. Verkefni nefndarinnar er að yfirfara tillögur starfshóps á vegum heimamanna og fleiri aðila um málefni byggðarinnar við Bakkaflóa og gera tillögur til ríkisstjórnar um viðbrögð stjórnvalda.

Í byrjun mars síðastliðinn skilaði starfshópur skipaður fulltrúum íbúa, sveitarfélagsins, stoðstofnana og þingmanna kjördæmisins tillögum til aðgerða sem eru til þess fallnar að styrkja stöðu byggðar á Bakkafirði og Langanesströnd. Starfshópurinn var settur á fót í framhaldi af opnum íbúafundi á staðnum og ákalli íbúa byggðarinnar um aðstoð stjórnvalda og aukið samstarf. Megin tillögur starfshópsins fela í sér að auka byggðakvóta, setja viðbótarfjármuni í samgönguáætlun, efla nærþjónustu og að byggðin við Bakkaflóa verði tekin inn í verkefnið Brothættar byggðir.

Ríkisstjórn Íslands samþykkti í kjölfarið á fundi sínum þann 15. mars að skipuð yrði nefnd með fulltrúum fimm ráðherra, þ.e. forsætisráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og mennta- og menningarmálaráðherra. Verkefni nefndarinnar er sem áður sagði að yfirfara tillögur starfshóps um málefni byggðarinnar í Bakkaflóa, meta gildi þeirra og gagn, bæta við tillögum eftir atvikum og gera tillögur til ríkisstjórnar um viðbrögð stjórnvalda.

Í nefndinni sitja Magnús Jónsson, formaður nefndarinnar og fulltrúi samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Héðinn Unnsteinsson, fulltrúi forsætisráðherra, Þórarinn Sólmundarson, fulltrúi mennta- og menningarmálaráðherra, Rebekka Hilmarsdóttir fulltrúi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra og Steinunn Valdís Óskarsdóttir, fulltrúi ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra. Með nefndinni starfar Hólmfríður Sveinsdóttur, sérfræðingur í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu, auk þess sem Kristján Þ. Halldórsson, sérfræðingur hjá Byggðastofnun, er starfsmaður nefndarinnar.

Nefndin hefur þegar hafið störf og mun halda austur dagana 30. – 31. ágúst til funda með íbúum og fulltrúum sveitarstjórnar ásamt því að heimsækja vinnustaði. Gert er ráð fyrir því að nefndin ljúki störfum um miðjan október þessa árs.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta