Ný reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga tekur gildi næstu áramót
Sigurður Ingi Jóhannsson samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur undirritað nýja reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga sem tekur gildi 1. janúar 2019. Reglugerðin er nr. 1088/2018 og er sett á grundvelli laga um tekjustofna sveitarfélaga nr. 4/1995. Við gildistöku reglugerðarinnar fellur úr gildi gildandi reglugerð um Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, nr. 960/2010, með síðari breytingum.
Nýja reglugerðin felur í sér uppfærslu á efni hennar til samræmis við breytingar sem gerðar hafa verið á ákvæðum laga um tekjustofna sveitarfélaga. Þá eru jafnframt gerðar breytingar á forsendum útgjaldajöfnunarframlaga til sveitarfélaga. Breytingarnar byggja á vinnu nefndar um endurskoðun á regluverki Jöfnunarsjóðs. Helstu markmið með breytingunum eru að:
- auka jöfnuð milli sveitarfélaga.
- styrkja millistór sveitarfélög og draga úr framlögum til tekjuhærri sveitarfélaga.
- draga úr neikvæðum áhrifum vegna sameiningar sveitarfélaga á framlög sjóðsins til útgjaldajöfnunar og styrkja þar með hvata til sameiningar.
- auka framlög til sveitarfélaga sem eru með hlutfallslega mörg börn á grunnskólaaldri, sveitarfélaga sem hafa marga þéttbýliskjarna og sveitarfélaga á vaxtarsvæðum.
Breytingar á forsendum útgjaldajöfnunarframlaga eru í fyrsta lagi breyting á svokallaðri hagkvæmnilínu sem m.a. mun styrkja millistór sveitarfélög sem mörg hver hafa verið í miklum vexti undanfarin ár. Í öðru lagi eru gerðar breytingar á vægi einstakra viðmiða sem m.a. munu draga úr vægi fjarlægða innan sveitarfélaga. Í þriðja lagi er bætt við nýju viðmiði sem snýr að fjölgun íbúa en bent hefur verið á að mikil útgjöld fylgi örum vexti sveitarfélaga. Þá verður höfuðborgarsvæðið jafnframt skilgreint sem einn byggðakjarni að Kjalarnesi undanskildu, sem hefur áhrif útreikning framlaga á því svæði. Loks eru gerðar breytingar á skerðingu útgjaldajöfnunarframlaga vegna tekna sveitarfélaga sem koma munu tekjuminni sveitarfélög til góða.