Hoppa yfir valmynd
12.04.2019 Innviðaráðuneytið

Öflug og markviss byggðastefna lykill að árangri

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flytur ávarp á ársfundi Byggðastofnunar á Siglufirði. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti ávarp á ársfundi Byggðastofnunar í gær, sem að þessu sinni var haldinn á Siglufirði. Ráðherra sagði ýmsar leiðir færar til að hafa góð áhrif á þróun byggðarlaga um allt land og það væri ríkur vilji sinn og ríkisstjórnarinnar allar að nýta þær leiðir sem tiltækar eru til jákvæðrar byggðaþróunar.

Ráðherra tilkynnti á fundinum um skipan nýrrar stjórnar Byggðastofnunar. Magnús Jónsson er nýr formaður stjórnar og tekur við af Illuga Gunnarssyni sem stígur úr stjórn. Halldóra Kristín Hauksdóttir kemur einnig inn í stjórn í stað Einars E. Einarssonar.

Sigurður Ingi sagði mjög vel hafa tekist til með nýja stefnumarkandi byggðaáætlun sem Alþingi samþykkti í júní í fyrra og að það hafi verið farsælt skref að færa byggðamálin til ráðuneytis sveitarstjórnarmála. „Það mikilvægasta við framkvæmd hennar sé tryggja samþættingu byggðamála við aðra málaflokka og tryggja að byggðagleraugun séu á lofti alltaf og alls staðar,“ sagði hann.

Á annan milljarð í aðgerðir byggðaáætlunar
Af 54 aðgerðum byggðaáætlunar væri þremur þegar lokið og 36 aðrar aðgerðir komnar í framkvæmd. Ráðherra sagði að þegar hafi verið úthlutað eða ráðstafað á annan milljarð króna til framkvæmdaraðila. Þar af hafi um 460 milljónum króna verið ráðstafað til verkefna sem samkeppni hefur verið um, til sértækra verkefna sóknaráætlana, til verslunar í dreifbýli og fjarvinnslustöðva. Alls hafa 26 verkefni verið styrkt á þann hátt.

Ráðherra sagði að sóknaráætlanir landshlutanna væru mikilvægt tæki til að reka byggðastefnu á forsendum heimamanna. „Við höfum verið að styrkja þær með auknum fjárveitingum og viljum leita leiða til að gera það enn frekar. Verklagið sem sóknaráætlanir byggja á hefur reynst vel og almenn ánægja er með það, bæði meðal ríkis og sveitarfélaga, enda færir það aukna ábyrgð og forræði á byggðamálum heim í hérað,“ sagði Sigurður Ingi.

Bættar samgöngur efla byggðir
Ráðherra ræddi ennfremur um mikilvægi bættra samgangna fyrir byggðir landsins. Hann rifjaði upp niðurstöður sjö ára rannsóknar á samfélagslegum áhrifum Héðinsfjarðargangna, sem Þóroddur Bjarnason kynnti fyrir nokkrum árum síðan. Þær hafi leitt í ljós að efnahagslíf í Fjallabyggð hafi eflst að Siglufjörður og Ólafsfjörður væri orðinn hluti ferðamannasvæðis Eyjafjarðar.

Hann sagði eitt af lykilmarkmiðum nýrrar samgönguáætlunar vera að stuðla að jákvæðri byggðaþróun. „Við viljum auka lífsgæði um land allt með bættum samgöngum og stuðla að þeim grunni sem nauðsynlegur er til að efla fjölbreytta atvinnu og bæta samkeppnishæfni, svo sem með betri aðgangi að þjónustu,“ sagði Sigurður Ingi.

Samgönguáætluninni fylgdu athafnir og það kæmi skýrt fram í nýrri fjármálaáætlun fyrir árin 2020 til 2024, sem nú er til umfjöllunar á Alþingi. „Árið 2018 var fjórum milljörðum króna bætt við málaflokkinn til viðhaldsframkvæmda í samgöngum. Frá því ríkisstjórnin tók við hefur verið ákveðið að setja um 40 milljarða króna aukalega í samgöngur. Á tímabili fjármálaáætlunar er stefnt að fimm milljarða aukningu til samgöngumála á ári. Fjárfesting í samgöngumannvirkjum mun því nema ríflega 120 ma.kr. á tímabili fjármálaáætlunar! Þessi fjárfesting kemur líka á góðum tíma þegar svo kann að vera, að eitthvað sé að hægjast um í hagkerfinu hjá okkur,“ sagði Sigurður Ingi Jóhannsson.

+ Ávarp samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra á ársfundi Byggðastofnunar

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta