Áform um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga í samráðsgátt
Frumvarpið mun fela í sér breytingar á ákvæðum 3. kafla laga um tekjustofna sveitarfélaga er snúa að Jöfnunarsjóði sveitarfélaga. Tilefni þess er tvíþætt:
Annars vegar kallar dómur Hæstaréttar frá 14. maí sl., í máli nr. 34/2018, Grímsnes- og Grafningshreppur gegn íslenska ríkinu, á breytingar á lögunum, með það meginhlutverk Jöfnunarsjóðs að leiðarljósi að jafna mismunandi útgjaldaþörf og skatttekjur sveitarfélaga. Í dómnum komst Hæstiréttur að þeirri niðurstöðu að það framsal löggjafans til ráðherra á ákvörðunarvaldi um skerðingu á tilteknum framlögum Jöfnunarsjóðs til tekjuhárra sveitarfélaga, sem felst í lokamálslið 18. gr. laganna, brjóti í bága við lagaáskilnaðarreglu 2. mgr. 78. gr. stjórnarskrárinnar. Í umræddu ákvæði stjórnarskrárinnar segir að tekjustofnar sveitarfélaga skuli ákveðnir með lögum, svo og réttur þeirra til að ákveða hvort og hvernig þeir eru nýttir.
Hins vegar eru uppi áform um aukna þátttöku Jöfnunarsjóðs í átaki til að efla sveitarstjórnarstigið, sem kalla á að heimildir sjóðsins til úthlutunar á sérstökum framlögum vegna sameiningar sveitarfélaga verði rýmkaðar. Er markmið þeirra að tryggja að kostnaður við framkvæmd sameininga standi þeim ekki í vegi og jafnframt að sameinað sveitarfélag standi ekki verr að vígi gagnvart Jöfnunarsjóði en forverar þess gerðu hvert í sínu lagi
Ráðuneytið bendir á að þegar frumvarpsdrög liggja fyrir verður einnig gefinn kostur á samráði.
Skoða áform um breytingar á lögum um tekjustofna sveitarfélaga