Hoppa yfir valmynd
28.06.2019 Innviðaráðuneytið

Ný vestnorræn byggðaþróunarstefna samþykkt

Að loknum fundi norrænna byggðamálaráðherra. Frá vinstri: Paula Lehtomäki framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Sigurður Ingi Jóhannsson (ÍS), Anders Ygeman (SVÍ), Monica Mæland (NO), Linnéa Johansson (ÁL), Halla Nolsøe Poulsen (FÆR) og Torsten A. Andersen (DK). - mynd

Norræna ráðherranefndin í byggðaþróun (MR-R) samþykkti á fundi sínum síðdegis í gær nýja byggðaþróunarstefnu fyrir vestnorræna svæðið, þ.e. Ísland, Grænland, Færeyjar og norður- og vesturhluta Noregs og gengur stefnan undir nafninu NAUST.

Stefnumörkuninni er ætlað að vísa veginn í vestnorrænu samstarfi með því að bregðast við áskorunum sem snúa að byggðaþróun. Í stefnumörkuninni er áhersla lögð á að styrkja tengsl lykilaðila á svæðinu, efla sjálfbæra þróun byggðarlaga og styrkja og þróa grunnatvinnuvegi. Forgangsröðun verkefna mun byggja á eftirfarandi áherslusviðum: Velferðar- og jafnréttismál, málefni hafsins og bláa hagkerfið, orkumál, samgöngur og björgun á sjó og sjálfbærni í ferðaþjónusta og menningarmál.

NAUST byggðaþróunarstefnan byggir á heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna ásamt því að tengja við aðrar stefnur Norrænu ráðherranefndarinnar s.s. Dagskrá 2030 og aðrar stefnur um sjálfbæra þróun, börn og ungmenni og jafnrétti kynjanna.

Norræna samstarfið miðar að því að Norðurlöndin standi sterkari saman á alþjóðavettvangi og að þau gegni mikilvægu hlutverki í alþjóðlegu samstarfi. Sameiginleg gildi landanna styrkja stöðu Norðurlanda sem eitt þeirra svæða heims þar sem nýsköpun og samkeppnishæfni er mest.

Norræna Atlantssamstarfið (NORA) mun hafa yfirumsjón með framkvæmd og eftirfylgni stefnunnar og mun innleiða markmið og forgangsatriði hennar inn í sína stefnumörkun. Framkvæmd og eftirfylgni með stefnunni mun verða á ábyrgð skrifstofu NORA í Færeyjum.

Forsaga verkefnisins
Árin 2009-2010 vann OECD ítarlega greiningu á Norðurlöndunum í vestri. Markmiðið var að skilgreina svæðið og koma með tillögur um hvernig styrkja mætti grundvöll til frekara samstarfs. Vinnan var jafnframt hugsuð sem framlag til norræns samstarfs í víðara samhengi. Ein af tillögum OECD til úrbóta í lokaskýrslunni að mikilvægt væri að marka langtímastefnu og framtíðarsýn fyrir svæðið. 

Ísland átti frumkvæðið
Ísland lagði til á formennskuári sínu í Norrænu ráðherranefndinni árið 2014 að hefja vinnu við að móta stefnu fyrir vestnorræna svæðið. „Ég fagna því að norrænu byggðamálaráðherrarnir hafi samþykkt stefnuna. Hún beinir aukinni athygli að svæði sem verður sífellt áhugaverðara í alþjóðasamstarfi. Á Norður-Atlantshafssvæðinu eru einstök sóknarfæri en jafnframt sameiginlegar áskoranir. Það er mikilvægt að við eflum samstarf okkar á þessu svæði,“ segir Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og formaður norrænu ráðherranefndarinnar í byggðaþróun.

Í Danmörku eru kosningar til þjóðþings nýyfirstaðnar og ný ríkisstjórn var mynduð í gær 27. júní. Þar af leiðandi tók Danmörk ekki afstöðu til stefnunnar en mun gera það á næstu vikum.

Nánar um NAUST

Frétt á vef Norrænu ráðherranefndarinnar

Paula Lehtomäki framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar á fundi norrænu byggðamálaráðherranna.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta