Hoppa yfir valmynd
05.07.2019 Innviðaráðuneytið

Ræktun og nýting repjuolíu getur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda

Ræktun og nýting repjuolíu getur dregið úr losun gróðurhúsalofttegunda á margvíslegan hátt. Rannsóknir sýna að ræktun repju er ákjósanleg fyrir landgræðslu og að unnt sé að framleiða á Íslandi næga repjuolíu fyrir eldsneyti á allan skipaflota landsmanna án þess að ógna matvælaframleiðslu í landinu. Þetta kemur fram í skriflegu svari Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, við fyrirspurn Silju Daggar Gunnarsdóttur á Alþingi. 

Í svarinu segist Sigurður Ingi styðja sjálfbæra ræktun orkujurta á Íslandi og áframhaldandi rannsóknir á þessu sviði  af aðgerðaáætlun stjórnvalda í loftslagsmálum. 

Ráðherra hyggst setja af stað aðgerðaáætlun til að ná því markmiði að íslenski skipaflotinn noti 5 til 10% íblöndun af íslenskri repjuolíu á aðalvélar sínar. Slík aðgerðaáætlun er í samræmi við stefnu núverandi ríkisstjórnar um aðgerðir til að minnka losun gróðurhúsaloftegunda frá skipum almennt. Skipaður verður starfshópur sérfræðinga til að undirbúa slíka aðgerðaáætlun.

Hagkvæm og jákvæð áhrif á umhverfið
Í svarinu segir að Samgöngustofa meti ræktun og notkun repjuolíu hagkvæma um leið og hún hafi jákvæð áhrif á umhverfið. Rannsóknir á ræktun repju sem orkujurtar og notkun lífdísils sýna að hægt er að framleiða hér á landi lífdísil úr repjuolíu sem nýta má sem eldsneyti á þorra þeirra véla sem gerðar eru fyrir dísilolíu úr jarðolíu.
Sömuleiðis metur stofnunin ávinning felast í ræktun repju í landgræðslu. Það eykur möguleika landbúnaðar og gæti orðið mikilvæg nýsköpun hér á landi. Ávinningurinn fer eftir því landi sem valið er en hann er mestur á ógrónu landi svo sem á íslenskum söndum.

Íslenski fiskiskipaflotinn brennir árlega um 160 þúsund tonnum af jarðdísilolíu. Orkan sem repjudísill gefur við brennslu er mjög sambærileg við það sem jarðdísill gefur af sér. Til þess að rækta repju sem gefur þetta magn af eldsneyti þarf 160 þúsund hektara lands miðað við að hver hektari gefur af sér um eitt tonn af repjuolíu.
Við ræktun repju á 160 þúsund hekturum lands dregur hún í sig tæplega milljón tonn af koldíoxíði (CO2) meðan á ræktuninni stendur. Við brennslu á 160 þúsund tonnum af repjuolíu eru losuð um 500 þúsund tonn af koldíoxíði (CO2) í andrúmsloftið. Eftir standa um 500 þúsund tonn af koldíoxíði sem ræktunin hefur dregið til sín úr andrúmsloftinu og bundið í jörð. Koldíoxíðið sem bundist hefur undirbýr jarðveginn fyrir næstu ræktun.

Samkvæmt upplýsingum frá Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins er ræktunarland á Íslandi um 600.000 hektarar eða 6% af flatarmáli landsins. Þar af er ónotað ræktunarland um 480.000 hektarar. Ræktun repju myndi því ekki raska framleiðslu á matvælum.

Verkefnið um sjálfbæra ræktun orkujurta til skipaeldsneytis á Íslandi hófst hjá Siglingastofnun Íslands árið 2008 en Samgöngustofa tók við því árið 2013. Eftirtaldir aðilar hafa tekið þátt í verkefninu með sérþekkingu og rannsóknir:

  • Landbúnaðarháskólinn sem sá um val á mismunandi ræktunarlandi á mismunandi stöðum víðs vegar um landið.
  • Fyrirtækin Véltak hf. í Hafnarfirði, Atlas ehf. og PS-Engineering lögðu fram leiðbeiningar er snýr að véltækni, varmafræði eldsneytis og almenna efnaverkfræði. 
  • Tvö bú komu að verkefninu strax í upphafi. Annars vegar búið Þorvaldseyri í Landeyjum en bóndi þar er Ólafur Eggertsson. Hins vegar búið Ósar við Vatnsnes í Vestur-Húnavatnssýslu en bóndi þar er Knútur Óskarsson.
  • Háskólinn í Reykjavík varð aðili að verkefninu árið 2010 í gegnum svokallað „Green Program“ verkefni. 
  • Vélskóli Íslands lagði til skipavélar til prófana fyrir lífdísil og fjórir nemendur skólans hafa skrifað lokaritgerðir um áhrif repjuolíu og repjudísils á skipavélar. 

Samstarfsverkefni gefur góða raun
Samgöngustofa, verkfræðistofan Mannvit og útgerðarfyrirtækið Skinney-Þinganes á Höfn í Hornafirði hafa þegar hafið samstarf um að rækta eldsneyti á fiskiskip fyrirtækisins. Útgerðarfyrirtækið rekur stórt kúabú á Flatey á Mýrum. Þar eru alls 500 nautgripir sem geta nýtt fóðurmjölið sem próteinríkan fóðurbætir. Þarna eru 1.300 hektarar af ræktanlegu landi sem gæti gefið samtals um 1.300 tonn af repjuolíu. Stefnt verður að því að allt eldsneyti fiskiskipa fyrirtækisins verði hrein repjuolía í framtíðinni. Jafnframt á allur fóðurbætir kúabúsins að koma frá repjuræktuninni.

Hlekkur á svar á vef Alþingis

 

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta