Áherslur samgöngu-og sveitarstjórnarráðherra í frumvarpi til fjárlaga 2020
Framlög til samgöngumála hækka um 4,5 milljarða frá yfirstandandi ári eða 11% samkvæmt fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar fyrir árið 2020. Alls nema framlög til málaflokksins ríflega 45 milljörðum króna. Breið samstaða hefur verið um að forgangsraða þessum mikilvæga málaflokki og þannig hafa fjárveitingar til samgöngumála hækkað um 12,3 milljarða frá árinu 2016.
Fjárveiting til verkefna sem tengjast byggðaáætlun fyrir árin 2018-2024 hækkar um 89 milljónir á milli ára, eða um 16%. Þá fer nú aukið framlag til net- og upplýsingaöryggismála með forgangsröðun fjármuna innan málaflokks fjarskipta- og póstmála.Hraðari uppbygging í samgöngum
- 45.417 milljónir króna til samgöngumála
- 27.035 milljónir til framkvæmda og viðhalds á vegakerfinu
- 6.191 milljón til þjónustu á vegakerfinu
- 12.190 milljónir til annarra verkefna í samgöngumálum
Af framlögum til samgöngumála er aukning mest til framkvæmda og viðhalds á vegakerfinu en áætlað er að verja um 27 milljörðum króna í nýframkvæmdir á vegum og brýnt viðhald, sem er tæplega 4 milljarða króna hækkun milli ára, eða 16,8%.
Fjárveiting til þjónustu á vegakerfinu eykst um 668 milljónir á milli ára, sem er um 12,1% hækkun og nemur tæplega 6,2 milljörðum króna. Mikil þörf er fyrir uppbyggingu og þróun vegakerfisins til að auka öryggi og bregðast við aukinni umferð. Þjónusta við vegi, svo sem hálkuvörn, snjómokstur, yfirborðsmerkingar, heflun, o.fl., er kostnaðarsöm og með vaxandi umferð eru auknar kröfur gerðar til hennar, ekki síst af hálfu ferðaþjónustunnar þar sem einnig hafa komið til nýjar þarfir.
Fjárveiting til annarra verkefna samgöngumála hækkar nánast á öllum sviðum og nemur alls tæplega 12,2 milljörðum króna. Má þar helst nefna að framlag til framkvæmda við vita og hafnir hækkar um 110 milljónir, framlag til flugvalla hækkar um 137 milljónir og framlag til styrkja til almenningssamgangna hækkar um 53 milljónir milli ára.Ísland á heimsvísu í fjarskiptum
- 1.345 milljónir króna til fjarskipta- og netöryggismála
Áfram verður unnið að því að bæta fjarskipti á svæðum þar sem er markaðsbrestur. Komandi ár er fimmta og næstsíðasta ár verkefnisins Ísland ljóstengt, en í gegnum fjarskiptasjóð hafa stjórnvöld styrkt ljósleiðaravæðingu sveitarfélaga fyrir um 450 milljónir ár hvert. Stefnt er að því að undir lok verkefnisins nái styrkir til um 6 þúsund staða á landsvísu. Farsæl uppbygging fjarskiptainnviða síðustu ár hefur stuðlað að þeim árangri að Ísland hefur síðustu tvö ár skipað fyrsta sæti á heimsvísu í fjarskiptum á mælikvarða Alþjóðafjarskiptasambandsins.
Með breyttri forgangsröðun fjármuna innan málaflokks fjarskipta- og póstmála fer nú aukið framlag til net- og upplýsingaöryggismála.Efling sveitarstjórnarstigsins og jákvæð byggðaþróun
- 23.585 milljónir til sveitarfélaga og byggðamála
- 21.505 milljónir í framlög til sveitarfélaga
- 2.081 milljón til byggðamála
Á málefnasviði sveitarfélaga og byggðamála er Jöfnunarsjóður sveitarfélaga umfangsmestur með fyrirhuguð útgjöld upp á um 21,5 milljarða króna, sem er aukning um 3,9% á milli ára. Fyrirhugað er að breyta reglum Jöfnunarsjóðs til að tryggja aukinn fjárhagslegan stuðning við sameiningar sveitarfélaga. Er það í samræmi við fyrstu heildarstefnu ríkisins í málefnum sveitarfélaga sem kynnt var nýlega. Góður stuðningur er við áformin. Þannig var á landsþingi Sambands íslenskra sveitarfélaga hinn 6. september síðastliðinn samþykkt tillaga stjórnar til landsþingsins um að mæla með því að Alþingi samþykki tillöguna um stefnumótandi áætlun ríkisins í málefnum sveitarfélaga fyrir árin 2019-2033 og aðgerðaáætlun.
Fjárveiting til byggðamála eykst um 2,8 % og nemur nú um 2,1 milljarði króna. Ríflega helmingur rennur til byggðaáætlunar og sóknaráætlana landshluta eða um 1,1, milljarður. Fjárveitingunni er meðal annars ætlað að stuðla að jákvæðri byggðaþróun og hefur framlag til þessara áætlana hækkað mikið frá árinu 2015 þegar það nam 473 milljónum króna.