Stefnumótun í sveitarstjórnarmálum vekur athygli í Strassborg
Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, hélt erindi um þá stefnu um styrkingu sveitarstjórnarstigsins sem liggur fyrir Alþingi á fundi stýrihóps Evrópuráðsins um lýðræði og sveitarstjórnarmál í Strassborg í gær. Ráðherra fór yfir markmið stefnunnar og hvernig hún hafði verið unnin í miklu samráði við sveitarstjórnarfólk um allt land.
Miklar og jákvæðar umræður sköpuðust meðal fundarmanna eftir erindið. Það er enda verkefni margra ríkja að dreifa valdi og efla stöðu sveitarfélaganna. „Íslendingar hafa flutt mikilvæg verkefni eins og grunnskólann og málefni fatlaðs fólks frá ríki til sveitarfélaga – til nærsamfélagsins. Þingsályktun um eflingu sveitarstjórnarstigsins felur í sér eitt mesta umbótaverkefni sem lagt hefur verið fram. Verði hún samþykkt verður sveitarstjórnarstigið öflugra og vald og verkefni færast nær borgurunum,“ sagði Sigurður Ingi meðal annars í umræðum eftir erindið.
Sigurður Ingi fundaði síðar um daginn með Andreas Kiefer, framkvæmdastjóra sveitarstjórnarvettvangs Evrópuráðsins. Meðal umræðuefna var samspil ríkis og sveitarfélaga og mikilvægi þess að styðja við dreifingu valds og styrkingu sveitarstjórnarstigsins um alla Evrópu. Einnig ræddu þeir vaxandi vandamál meðal sveitarstjórnarfólks sem er aukin hatursorðræða sem eykur enn hættuna á því að brottfall kjörinna fulltrúa aukist.