Skýrsla um framvindu byggðaáætlunar lögð fram á Alþingi
Samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra hefur lagt fram skýrslu á Alþingi um framvindu stefnumótandi byggðaáætlunar fyrir árin 2018–2024, sem samþykkt var í júní 2018. Markmið byggðaáætlunar að jafna tækifæri allra landsmanna til atvinnu og þjónustu, jafna lífskjör og stuðla að sjálfbærri þróun byggðarlaga um land allt. Sérstaka áherslu skal leggja á svæði sem búa við langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Settar voru fram samtals 47 áherslur sem skiptast milli markmiðanna þriggja og 54 aðgerðir kynntar til að ná þessum markmiðum.
Í skýrslunni segir að það sé mat Byggðastofnunar að framkvæmd byggðaáætlunar hafi farið vel af stað. „Byggðastofnun telur að breytt vinnulag við gerð og framkvæmd byggðaáætlunar sé mjög til bóta og að vægi hennar við ákvarðanatöku hafi jafnframt aukist verulega. Byggðastofnun merkir aukna áherslu á byggðamál hjá stjórnvöldum og fjölmörg þingmál tengjast beint og markvisst einstökum tillögum byggðaáætlunar. Þá er áætlunin heildstæðari og nær til mun fleiri sviða en fyrri áætlanir. Of snemmt er að meta ávinning byggðaáætlunar, en full ástæða er til að ætla að hún muni skila árangri. Þá telur Byggðastofnun að sú áhersla að samþætta byggðaáætlun annarri stefnumörkun hafi þegar skilað árangri.“
Í viðauka með skýrslunni er birt staða allra aðgerða byggðaáætlunar.