Sveitarstjórnir fá frest til að skila ársreikningum
Ákveðið hefur verið að veita öllum sveitarstjórnum landsins heimild til að framlengja tímafresti um meðferð og skil ársreikninga. Auglýsing um ákvörðun samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra varðandi skil á ársreikningum sveitarfélaga hefur verið birt í Stjórnartíðindum.
Auglýsingin er birt með vísan í VI. bráðabirgðaákvæði sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011, sem kveður á um að ráðherra geti veitt sveitarstjórnum tímabundna heimild til að víkja frá tilteknum ákvæðum sveitarstjórnarlaga til að sveitarstjórn sé starfhæf við neyðarástand og til að auðvelda ákvarðanatöku. Þetta er gert til að bregðast við aðstæðum sem skapast hafa vegna Covid-19 kórónaveirufaraldursins.
Öllum sveitarstjórnum er nú heimilt að taka eftirfarandi ákvarðanir varðandi skil á ársreikningum sveitarfélaga fyrir árið 2019, sem fela í sér tímabundin frávik frá skilyrðum ákvæða 3. og 4. mgr. 61. gr. og 2. mgr. 76. gr. sveitarstjórnarlaga, nr. 138/2011:
- Um að ársreikningur verði fullgerður og samþykktur af byggðarráði eða framkvæmdastjóra sveitarfélags þar sem ekki er byggðarráð, og tilbúinn til endurskoðunar og afgreiðslu í sveitarstjórn fyrir 15. maí 2020 í stað 15. apríl sama ár.
- Um að ljúka staðfestingu ársreiknings sveitarfélags, stofnana sveitarfélags og fyrirtækja þess fyrir 15. júní 2020 í stað 15. maí sama ár.
- Um að senda ráðuneytinu og Hagstofu Íslands ársreikning sveitarfélags, ásamt skýrslu endurskoðanda, fyrir 20. júní 2020 í stað 20. maí sama ár.
Heimild þessi gildir til 20. júní 2020.