Hoppa yfir valmynd
31.03.2020 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Miklar fjárfestingar í samgöngum, fjarskiptum og byggðamálum til að vinna gegn samdrætti

Á þessu ári verða 6,5 milljarðar kr. settir í samgöngumál, 550 milljónir í uppbyggingu fjarskiptakerfa og 300 milljónir til byggðamála til að sporna gegn samdrætti í hagkerfinu í kjölfar heimsfaraldurs kórónuveiru. Alþingi samþykkti þingsályktunartillögu í gærkvöldi um tímabundið fjárfestingarátak stjórnvalda þar sem þetta var staðfest. Öll fjárfestingaframlögin bætast við önnur framlög í þessum málaflokkum á fjárlögum.

Markmið átaksins er að ráðast í arðbærar fjárfestingar og um leið auka eftirspurn eftir vinnuafli og örva landsframleiðslu á tímum samdráttar. Um er að ræða fjölbreyttar nýframkvæmdir í samgönguinnviðum sem undirbúningur er vel á veg kominn og hægt að ráðast í strax en einnig viðhaldsverkefni. Verkefnin eru um land allt og taka til allra samgöngugreina, þ.e. vega, flugvalla og hafna. Stærstur hluti fjárfestingarinnar er í vegakerfinu, nýframkvæmdir, breikkun einbreiðra brúa og gerð hringtorga auk viðhalds vegaTillögurnar eru í góðu samræmi við þær áherslur sem hafa komið fram í umfjöllun umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um samgönguáætlun.

 

Vegaframkvæmdir og viðhald

Þegar í ár verður 1.860 milljónum kr. varið í vegaframkvæmdir og hönnun þeirra. Þau verkefni sem ráðist verður í til viðbótar við gildandi fjárveitingar eru:

  • Reykjanesbraut – Krýsuvíkurvegur-Hvassahraun
  • Borgarfjarðarvegur
  • Snæfellsnesvegur um Skógarströnd
  • Suðurlandsvegur, Bæjarháls–Vesturlandsvegur 
  • Suðurlandsvegur, Fossvellir–Norðlingavað
  • Hringvegur um Heiðarsporð (Biskupsbeygja)
  • Vesturlandsvegur, Langitangi–Hafravatnsvegur
  • Þverárfjallsvegur um Refasveit og Skagastrandarvegur um Laxá
  • Breiðholtsraut frá Jaðarseli að Suðurlandsvegi (hönnun og undirbúningur)
  • Breikkun Reykjanesbrautar frá Fjarðarhrauni að Mjódd (hönnun og undirbúningur)

Tengivegir, viðhald og hringtorg

Einum milljarði kr. verður veitt í að leggja bundið slitlag á tengivegi um allt land  og einum milljarði til viðbótar í viðhald vega. Betri tengivegir fækka slysum verulega, stytta ferðatíma og draga úr umhverfisáhrifum. Skólaakstur víða um land fer um tengivegi sem eru varasamir malarvegir. Þar að auki skipta þeir miklu máli í þróun ferðamennsku víða um land. Undirbúningur framkvæmda gæti skapað 30 ársverk í hátæknistörfum. Framkvæmdin skapar 190 ársverk hjá verktökum á framkvæmdatíma á öllum landsvæðum. 

Þá verða lagðar 200 milljónir kr. í framkvæmdir við hringtorg við Landvegamót, á Eyrarbakkavegi og á Flúðum, öll á Suðurlandi.

Einbreiðar brýr

Á þessu ári hefst einnig verulegt átak í að fækka einbreiðum brúm. 700 milljónir kr. renna í verkefnið í ár en áformað er að verja aukalega 3.300 m. kr. til að breikka einbreiðar brýr á næstu tveimur árum. Það framlag bætist við fjárveitingar á samgönguáætlun og alls verður því framkvæmt fyrir um 5.200 milljónir kr. á næstu árum. Alls geta orðið til um 140 ársverk vegna framkvæmdanna. Eftirtaldar brýr verða breikkaðar í ár.

  • Köldukvíslargil á Norðausturvegi
  • Gilsá á Völlum á Skriðdals- og Breiðdalsvegi
  • Botnsá í Tálknafirði
  • Bjarnadalsá í Önundarfirði
  • Núpsvötn
  • Stóra-Laxá á Skeiða- og Hrunamannvegi
  • Skjálfandafljót á Hringvegi hjá Fosshóli við Goðafoss

Nokkrar brúarframkvæmdir eru á samgönguáætlun en það eru brýr yfir Jökulsá á Sólheimasandi, Hattardalsá og Steinavötn, Brunná austan við Kirkjubæjarklaustur, Kvíá í Öræfasveit og Fellsá í Suðursveit.

Hafnaframkvæmdir um land allt

Hafist verður handa við fjölbreyttar hafnaframkvæmdir um land allt og alls verða 750 milljónir kr. settar aukalega í slíkar framkvæmdir. Hafnir í Ólafsvík, Súðavík, Sandgerði og Þorlákshöfn verða dýpkaðar. Unnið verður í ýmsum grjótverkefnum á Bakkafirði, Sauðárkróki, í Njarðvík og Keflavík, ráðist í landfyllingu á Bíldudal og í stálþilsverkefni á Djúpavogi. Loks verður fjárfest í sjóvörnum á ýmsum stöðum vegna tjóns í óveðrum.

Framkvæmdir á flugvöllum

Áformað er að hefja framkvæmdir á fjórum flugvöllum á landsbyggðinni og efla einnig viðhald á öðrum flugvöllum og lendingarstöðum. Stækkun flugstöðvar  á Akureyri, flughlað á Akureyri og akbraut á Egilsstaðaflugvelli eru stærstu verkefnin en einnig verður ráðist í framkvæmdir á Ísafjarðarflugvelli og Þórshafnarflugvelli. Framkvæmdir munu hefjast við stækkun flugstöðvar á Akureyri á þessu ári  svo hægt verði að afgreiða farþega í innanlands- og millilandaflugi samtímis. Þá verður flughlað einnig stækkað á Akureyrarflugvelli. Á Egilsstaðaflugvelli verður ráðist í framkvæmdir við nýja akbraut til að styrkja hlutverk flugvallarins sem varaflugvallar.

 

Uppbygging fjarskiptakerfa

Ákveðið hefur verið að leggja 400 milljónir viðbótarfjármagn í ljósleiðaravæðingu í dreifbýli á vegum Ísland ljóstengt. Markmiðið er sem fyrr að nær öll heimili og fyrirtæki í dreifbýli hafi aðgang að ljósleiðaratengingu og að því verkefni ljúki árið 2021.

Þá verður 150 milljónum kr. varið í aukið varaafl til mikilvægra fjarskiptastaða á vegum fjarskiptasjóðs og Neyðarlínu. Áformað er að 100 milljónir bætist við það verkefni á næsta ári.

 

Brothættar byggðir og sóknaráætlanir landshluta

Þá var ákveðið að 200 milljónir kr. rynnu aukalega í sóknaráætlanir landshluta. Hægt er að sækja um styrki úr sjóðunum til menningarstarfsemi annars vegar og atvinnuþróunar og nýsköpunar á landsbyggðinni hins vegar. Markmiðið er að ráðstöfun fjármuna úr sóknaráætlunum sé varið til verkefna í einstökum landshlutum á sviði samfélags- og byggðamála byggi á áherslum heimamanna.

Loks var samþykkt að veita 100 milljónum kr. í verkefnið Brothættar byggðir á vegum Byggðastofnunar.

 

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta