Hoppa yfir valmynd
30.04.2020 Innviðaráðuneytið

Nýsköpunar- og þróunarverkefni ýtt úr vör á Flateyri

Frá Flateyri - mynd Mynd: iStock

Í dag var undirritaður samningur milli samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis, Ísafjarðarbæjar og Vestfjarðastofu um að ýta úr vör nýsköpunar- og þróunarverkefni fyrir Flateyri, sem ætlað er að tryggja markvissa vinnu að framfaramálum á staðnum. Heildarframlag ríkisins til verkefnisins er 78 milljónir kr. til þriggja ára.

Í kjölfar snjóflóðanna á Flateyri í janúar sl. skipaði ríkisstjórnin starfshóp til að móta tillögur um aðgerðir til að treysta atvinnulíf og búsetu á Flateyri. Starfshópurinn skilaði tillögum sínum í byrjun mars þar sem lagðar eru til 15 aðgerðir sem allar geta haft jákvæða þýðingu fyrir framtíðarþróun samfélagsins og eftirmála snjóflóðanna.  

Ein aðgerðin snýr að því að ráðist í nýsköpunar- og þróunarverkefni fyrir Flateyri.  Ísafjarðarbær mun ráða verkefnisstjóra í fullt starf sem hefur það hlutverk að leiða verkefnið, í samstarfi við verkefnisstjórn, á grundvelli samningsins. Verkefnisstjórnin verður skipuð tveimur fulltrúum frá Ísafjarðarbæ, tveimur fulltrúum frá íbúasamtökum Flateyrar og einum fulltrúa frá Vestfjarðastofu. Ísafjarðarbær birti í dag atvinnuauglýsingu um starf verkefnastjóra á Flateyri en umsóknarfrestur er til og með 15. maí nk.

Þróunarverkefnið nær til þriggja ára og miðar að því að þróa og útfæra nýsköpunarverkefni á Flateyri, leita stuðnings í samkeppnis- og nýsköpunarsjóði og huga að nýtingu húsnæðis í því skyni. Verkefnisstjóri mun hafa umboð til að fylgja tillögum starfshóps um málefni Flateyrar eftir og eftir atvikum setja fram tillögur til stjórnvalda um málefni Flateyrar. Leitað verður eftir því við Byggðastofnun að vera verkefninu til ráðgjafar og horft verður til reynslu og aðferðafræði í verkefninu Brothættar byggðir. Samhliða verður komið á fót samkeppnis- og nýsköpunarsjóði sem getur tryggt mótframlag til nýsköpunar- og frumkvöðlaverkefna á Flateyri. Sérstakar reglur verði settar um úthlutun framlaga sem byggja á sambærilegum viðmiðunum og gilda um úthlutanir úr uppbyggingarsjóði Vestfjarða.

Framlög ríkisins samkvæmt samningnum skiptast í fjóra hluta. Í ár verður framlagið 13 milljónir kr., árin 2021 og 2022 verður framlagið 26 milljónir kr. hvort ár og árið 2023 verður framlagið 13 milljónir kr. Það voru Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar, Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu og Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu sem undirrituðu samninginn rafrænt.

Ríkisstjórnin hefur falið þriggja manna verkefnisstjórn til að annast framkvæmd og eftirfylgni aðgerða á Flateyri í samræmi við tillögur starfshópsins. Í verkefnisstjórninni eru Pétur Berg Matthíasson, formaður, frá forsætisráðuneyti, Sólrún Halldóra Þrastardóttir frá fjármála- og efnahagsráðuneyti og Hólmfríður Sveinsdóttir frá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneyti.

 
  • Sigríður Ó. Kristjánsdóttir, framkvæmdastjóri Vestfjarðastofu, Birgir Gunnarsson, bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar og Hermann Sæmundsson, skrifstofustjóri hjá samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu  undirrituðu samninginn rafrænt. - mynd

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta