Hoppa yfir valmynd
06.10.2020 Innviðaráðuneytið

Fimm milljarða innspýting til sveitarfélaga

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, flutti ávarp á fjármálaráðstefnu sveitarfélaga. - mynd

Sigurður Ingi Jóhannsson, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, kynnti nýjar aðgerðir til að veita sveitarfélögum fjárhagslega viðspyrnu á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna fyrir helgi. Viljayfirlýsing um aðgerðirnar og samkomulag um afkomumarkmið og efnahag sveitarfélaga hafa verið undirrituð af fulltrúum ríkis og sveitarfélaga. Viðbótarframlög ríkissjóð með nýjum aðgerðum nema rúmum 3,3 milljörðum króna en heildarstuðningur til sveitarfélaga á grundvelli yfirlýsingarinnar nemur rúmum 4,8 milljörðum króna.

Í ávarpi sínu á fjármálaráðstefnunni sagði ráðherra að heimsfaraldur kórónuveiru svo sannarlega sett mark sitt á íslenskt samfélag og heiminn allan. Þjóðinni hafi þó tekist að sigla í gegnum þetta með skynsemi og ráðdeild. „Ríkisstjórnin hefur gripið til margvíslegra aðgerða til viðspyrnu og viðsnúnings fyrir íslenskt efnahagslíf og er stöðugt að meta þörf fyrir nýjar aðgerðir,“ sagði Sigurður Ingi.

Ráðherra sagði að strax á fyrstu dögum faraldursins hafi ráðuneytið átt í nánu samstarfi við Samband íslenskra sveitarfélaga um aðkomu sveitarfélaganna og viðbúnað allan. Samstarfið hafi m.a. miðað að því hvetja sveitarfélögin til að grípa til sambærilegra aðgerða og ríkið varðandi frestun gjalda, lækkun eða niðurfellingu þeirra eftir atvikum, auknar fjárfestingar og viðhaldsframkvæmdir. 

Sigurður Ingi sagði að eftir sem áður hafi ríkissjóður borið hitann og þungann af mótvægisaðgerðum vegna faraldursins og því verði áhrif á fjárhag ríkissjóðs mikil. Flestar aðgerðir hafi þó haft bein eða óbein áhrif á fjármál sveitarfélaga. Hlutabótaleið og öflugt atvinnuleysistryggingarkerfi hafi án efa gert það að verkum að fallið í útsvarinu var minna en búast mátti við. Endurgreiðsla á virðisaukaskatti til sveitarfélaga eða stofna þeirra gæti skilað um 2 milljörðum króna á tímabilinu. Veitt hafi verið 600 m.kr. framlag til að styðja við lágtekjuheimili til að tryggja jöfn tækifæri barna til íþrótta og tómstundastarfs. Þá hafi sérstöku framlagi veitt til atvinnuskapandi verkefna á Suðurnesjum og fimm sveitarfélög á Suðurlandi og eitt á Norðurlandi eystra fengið stuðning vegna hruns ferðaþjónustunnar.

Gott samtal og samráð ríkis og sveitarfélaga

Ráðherra segir gott samtal og samráð milli ríkis og sveitarfélaga hafa leitt til margs góðs fyrir sveitarfélögin. „Mikilvægt er að forgangsraða stuðningi, almennar aðgerðir sem renna líka þangað þar sem þeirra er ekki þörf, skila engu gagni fyrir þjóðarbúið eða sveitarfélögin,“ sagði Sigurður Ingi.

Það hafi verið sameiginlegt mat að rétt væri að fá heildstæða greiningu á fjárhagslegri stöðu sveitarfélaga til að hægt væri að gera tillögur um gagnlegar aðgerðir. Skýrslu starfshóps um fjárhagsstöðu sveitarfélaga hafi verið skilað í ágúst og hafi hún leitt í ljós að samanlögð rekstrarniðurstaða sveitarfélaganna allra verði 26,6 milljörðum lakari en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlunum ársins 2020. Þá megi búast við að auknar fjárfestingar sveitarfélaga nemi rúmlega 6,5 milljörðum króna. Samanlagt væru áhrifin því rúmlega 33 milljarðar króna eða rúmlega 91 þúsund króna á hvern íbúa.

Ráðherra sagði ljóst að staða sveitarfélaga væri afar misjöfn, mörg hver hafi t.d. rúmt svigrúm til að takast á við þessar tímabundnu þrengingar meðan önnur eiga erfiðara um vik, m.a. vegna skuldastöðu, tekjusamsetningar og íbúaþróunar. 

Aukið við fjárhagslegan stuðning

Sigurður Ingi sagði í ávarpinu að greining starfshópsins hafi verið góður grunnur fyrir þær aðgerðir sem kynntar væru í yfirlýsingu ríkisstjórnar og sveitarfélaga. Markmið þeirra væri að því veita sveitarfélögunum fjárhagslega viðspyrnu og verja lögbundna grunnþjónustu.

Aðgerðirnar eru eftirtaldar:

  • 670 m.kr. sem varið verði til framlaga til sveitarfélaga vegna málefna fatlaðs fólks.
  • 720 m.kr. sem renni til sveitarfélaga þar sem kostnaður við fjárhagsaðstoð er yfir nánar tilgreindum mörkum. 
  • 500 m.kr. sem nýtist til stuðnings þeirra sveitarfélaga sem glíma við hvað mesta fjárhagserfiðleika vegna Covid-19 faraldursins. Framlögin verði veitt í samstarfi við eftirlitsnefnd með fjármálum sveitarfélaga og eftir atvikum Lánasjóð sveitarfélaga. 
  • 480 m.kr. tímabundin lækkun tryggingargjalds sem samsvarar viðbótarútgjöldum launagreiðenda vegna launahækkana í tengslum við lífskjarasamning.
  • 935 m.kr. sem styðji við stefnumarkandi áætlun stjórnvalda um eflingu sveitarstjórnarstigsins og aukna sjálfbærni þess með sameiningum sveitarfélaga.
  • Heimild til að nýta 1.500 m.kr. úr Fasteignasjóði Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga verði nýtt í ár og á næsta ári til þess að vega upp á móti lækkun almennra tekju- og útgjaldajöfnunarframlaga sjóðsins.

Viðbótarframlög ríkissjóðs nema samtals 2.825 m.kr. Heildarstuðningur til viðspyrnu fyrir sveitarfélögin á grundvelli yfirlýsingarinnar nema samtals 4.805 m.kr. Jöfnunarsjóður sveitarfélaga mun annast útgreiðslur framlaga í nánu samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga.

Aðgerðirnar koma til viðbótar þeim fjölmörgu efnahagsaðgerðum vegna COVID-19 sem stjórnvöld hafa þegar samþykkt og ríkissjóður fjármagnar og koma sveitarfélögunum til góða með beinum og óbeinum hætti.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta