Hoppa yfir valmynd
17.11.2020 Háskóla-٫ iðnaðar- og nýsköpunarráðuneytið

Frumvarp um stefnumarkandi áætlanir á sviði samgöngu-, fjarskipta-, og byggðamála í samráðsgátt

Málaflokkar ráðuneytisins raðast í fjórar stefnur og áætlanir í fjarskiptum, samgöngum, byggðamálum og sveitarstjórnarmálum. - mynd

Drög að nýjum lögum um stefnumarkandi áætlanir á sviði samgöngu-, fjarskipta-, og byggðamála hafa verið birt í samráðsgátt stjórnvalda. Allir hafa tækifæri til að senda inn umsögn eða ábendingar en frestur til að skila umsögn er til og með 28. nóvember 2020.

Frumvarpið felur í sér nýja hugsun og mikilvæga viðhorfsbreytingu í opinberri stefnumótun og áætlanagerð. Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar sem miðað að því að ná fram markmiðum um aukna samhæfingu og aukin gæði einstakra áætlana, skarpari pólitíska aðkomu að stefnumótun og bætt samráð og samtal við almenning og hagsmunaaðila.

Sú stefnumörkun sem unnin er í samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytinu samkvæmt lögum er eftirfarandi:

  • Samgönguáætlun, skv. lögum um samgönguáætlun, nr. 33/2008.
  • Fjarskiptaáætlun, skv. lögum um fjarskipti, nr. 81/2003.
  • Byggðaáætlun, skv. lögum um byggðaáætlun og sóknaráætlanir, nr. 69/2015.
  • Stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga, skv. sveitarstjórnarlögum, nr. 138/2011, sbr. lög nr. 53/2018.

Þessar fjórar stefnur og áætlanir varða öll meginverkefni ráðuneytisins og segja má að þær séu hryggjarstykkið í stefnu þess og starfi. Þær tengjast mjög náið og einstök meginmarkmið og áherslur snerta gjarnan þær allar samtímis. Ein áætlun hefur þannig áhrif á aðra, t.d. er verkefnið Ísland ljóstengt fyrst og fremst byggðamál og bættar samgöngur tengja bæði sveitarfélög og byggðir.

Lög um breytingu á ýmsum lögum til samræmingar á áætlunum á sviði samgöngu-, fjarskipta-, sveitarstjórnar- og byggðamála, nr. 53/2018, sem gildi tóku í júní 2018, fólu í sér fyrsta áfangann í þessa átt. Var markmiðið að ná fram aukinni skilvirkni og samhæfingu áætlana, auk þess sem komið var á sérstakri stefnumörkun í málefnum sveitarfélaganna. Verklag við gerð áætlana var samræmt, sem og form þeirra og tímaspönn, m.a. út frá forsendum laga um opinber fjármál.

Helstu atriði frumvarps

Frumvarp þetta felur í sér næsta áfanga við samhæfingu stefna og áætlana á verkefnasviði samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Helstu efnisatriði þess eru eftirfarandi:

  • Í stað sérlaga um einstakar áætlanir verði ákvæði um undirbúning, gerð og samhæfingu samgönguáætlunar, fjarskiptaáætlunar og byggðaáætlunar í einum lögum. Nýleg ákvæði um stefnumótandi áætlun ríkisins um málefni sveitarfélaga verða hins vegar áfram í sveitarstjórnarlögum, enda nýtur sú áætlun nokkurrar sérstöðu vegna sjálfstæðis sveitarstjórnarstigsins. Stefnumörkun á því sviði verður hins vegar samhæfð þeim þremur áætlunum sem frumvarp þetta tekur til eins og kostur er.
  • Frumvarpið hefur ekki að geyma jafn ítarleg ákvæði um undirbúning og innihald áætlana og núgildandi lög, sérstaklega lög um samgönguáætlun. Með þeim lögum voru sameinaðar fjórar áður sjálfstæðar áætlanir. Kallaði það á ítarleg ákvæði um efni og markmið hinnar nýju sameinuðu samgönguáætlunar sem og verklag við gerð hennar. Þessi þörf er ekki lengur til staðar. Er nú þvert á móti í samræmi við þróun lagasetningar undanfarinna ára að auka frekar pólitískt svigrúm til stefnumörkunar eftir aðstæðum hverju sinni.
  • Í stað ítarlegra ákvæða gildandi laga um markmið og aðferðafræði við áætlanagerðina er kveðið á um að áætlanir skuli byggðar á tilteknum skýrum meginmarkmiðum og heildstæðri stefnumörkun ráðherra. Þá skuli gætt að samhæfingu áætlana og að þær styðji hvor við aðra í samræmi við sameiginlega framtíðarsýn og meginmarkmið. Eftir sem áður munu áætlanir byggja á grundvallarsjónarmiðum um hagkvæma nýtingu opinbers fjár, atvinuuppbyggingu, aukna samkeppnishæfni landsins og tryggt öryggi.
  • Í stað þess að þingsályktunartillögur um samgöngu-, fjarskipta- og byggðaáætlanir skuli lagðar fram á að minnsta kosti þriggja ára fresti sé það gert einu sinni á kjörtímabili. Er það í samræmi við ákvæði í lögum um opinber fjármál um framlagningu á fjármálastefnu nýrrar ríkisstjórnar og undirstrikar að í tillögunum felst stefnumörkun ráðherra á þessum þremur sviðum á kjörtímabilinu.
  • Í hverri áætlun skal sem fyrr mörkuð stefna fyrir næstu fimmtán ár á viðkomandi svið en jafnframt skulu þar tilgreindar sérstaklega þær aðgerðir sem ráðist skal í á fyrstu fimm árum gildistíma hennar. Gert er ráð fyrir því að hver áætlun verði þannig afgreidd í einu lagi.
  • Ef forsendur áætlunar breytast á kjörtímabilinu eða ef tilefni er til að öðru leyti leggur ráðherra fram tillögu um breytingar á viðkomandi áætlun í stað þess að leggja fram nýja áætlun í heilu lagi. Gerir það undirbúning og meðferð slíkra breytingartillagna bæði einfaldari og markvissari en nú er.
  • Í stað árlegrar skýrslugjafar til Alþingis er gert ráð fyrir því að ráðherra upplýsi bæði Alþingi og almenning um framgang áætlananna með reglubundnum og aðgengilegum hætti. Liggur beint við að það verði gert í gegnum rafræna upplýsingagátt þar sem allar nauðsynlegar upplýsingar um meðal annars stöðu mælikvarða og einstakra aðgerða sem og ráðstöfun fjárveitinga verða uppfærðar reglulega.

Efnisorð

Síðast uppfært: 8.9.2017 1
Var efnið hjálplegt?
Takk fyrir

Ábendingin verður notuð til að bæta gæði þjónustu og upplýsinga á vef Stjórnarráðsins. Hikaðu ekki við að hafa samband ef þig vantar aðstoð.

Af hverju ekki?

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum

Ef um er að ræða áríðandi erindi til borgaraþjónustu utanríkisráðuneytisins þá skal senda póst á [email protected]

Upplýsingar um netföng, símanúmer og staðsetningu ráðuneyta