Fréttaannáll samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins 2020
Nýliðið ár var viðburðaríkt í málaflokkum samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytisins. Margir áfangar náðust af þeim stefnumálum sem ráðherra setti sér að ljúka á kjörtímabilinu. Óhjákvæmilega mörkuðust verkefni ráðuneytisins töluvert af heimsfaraldri kórónuveiru og nauðsynlegum viðbrögðum vegna faraldursins.
Ný samgönguáætlun fyrir tímabilið 2020-2034 var samþykkt á árinu en með henni og tímabundnu fjárfestingaátaki ríkisstjórnarinnar vegna kórónuveirunnar eru boðaðar miklar fjárfestingar í samgönguinnviðum um land allt. Opinbert hlutafélag var einnig stofnað á árinu um uppbyggingu samgönguinnviða á höfuðborgarsvæðinu. Þá voru Dýrafjarðargöng opnuð í október en þau marka tímamót í samgöngum á Vestfjörðum. Loks má nefna að stafræn ökuskírteini voru kynnt til sögunnar á árinu.
Frumvarp til nýrra heildarlaga um fjarskipti voru lögð fram í október. Tímamót urðu í byrjun september þegar ný lög um öryggi net- og upplýsingakerfa mikilvægra innviða tóku gildi. Markmið þeirra er að gera Ísland betur í stakk búið til að bæta netöryggi og bregðast við aðstæðum þar sem því er raskað. Á árinu tóku einnig gildi ný lög um póstþjónustu og um skráningu einstaklinga.
Loftbrú var kynnt til sögunnar á árinu en með henni eiga íbúar á landsbyggðinni kost á lægri flugfargjöldum til borgarinnar, en ráðherra lýsti yfir að þetta væri með mikilvægari byggðaaðgerðum sem ráðist hafi verið í. Undirbúningur að endurskoðun byggðaáætlunar hófst á árinu með víðtæku samráði og undir lok árs var fyrsta grænbók um byggðamál kynnt í samráðsgátt, sem ætlað er að meta stöðu byggðamála og vera grundvöllur fyrir nýja stefnumótun í byggðamálum til fimmtán ára.
Í október undirrituðu fulltrúar ríkis og sveitarfélaga viljayfirlýsingu um aðgerðir og samkomulag um afkomumarkmið og efnahag sveitarfélaga. Viðbótarfjárhagsstuðningur er ætlaður að veira sveitarfélögum viðspyrnu á tímum heimsfaraldurs kórónuveiru með mikilvægri aðkomu Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga.